Afhending ljósakassans á Norðurlandi

Í maímánuði hægist nokkuð um í Vísindasmiðjunni því þá er Háskólalestin á ferð um landið og drjúgur hluti starfsfólks Vísindasmiðjunnar með í för. Að þessu sinni höfum við gripið tækifærið til að koma út ljósakassa Vísindasmiðjunnar sem Ari Ólafsson setti saman í tilefni af ári ljóssins en styrkur fékst til að gefa kassana í alla grunnskóla á landinu.

Kassinn inniheldur íhluti til verklegrar kennslu í ljósfræði; ljóskastara, skautunarsíur, leisigeisla, ljósgreiður og sitthvað fleira sem nýta má til sýnikennslu, athugana og skapandi verkefna.

Ríflega 80% skóla á landinu hafa nú þegar fengið sinn kassa en við erum nú að nýta ferðir Háskólalestarinnar til að koma út síðustu kössunum. Í síðustu viku voru afhentir kassar á Akureyri og stefnt er að því að klára austurland með ferð Háskólalestarinnar á Egilsstaði undir lok þessarar viku.