Fjölmenni á Vísindadegi Verkfræði- og náttúruvísindasviðs

Vel á þriðja þúsund manns komu á Vísindadag Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands síðastliðinn laugardag. 

Á Vísindadeginum, sem nú var haldinn í annað sinn, var gestum og gangandi á öllum aldri boðið að kynna sér  ótal hliðar verkfræðinnar og náttúru- og raunvísindanna. Starfsfólk Vísindasmiðju Háskóla Íslands bauð upp á ýmsar eðlisfræðitilraunir, Sprengjugengið sýndi efnafræðitilraunir og verkfræðinemarnir í Team Spark sýndu rafknúna kappasktursbílinn TS15.

Á Vísindadeginum heiðraði Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands þau Guðrúnu Bachmann, kynningarstjóra vísindamiðlunar við skólann, og Ara Ólafsson, dósent í tilraunaeðlisfræði, sérstaklega fyrir framlag þeirra til vísindamiðlunar. Guðrún og Ari hafa leitt vísindamiðlun Háskóla Íslands til barna og ungmenna á síðustu árum en meðal vísindamiðlunarverkefna skólans eru Háskóli unga fólksins, Háskólalestin sem ferðast um landið,Vísindasmiðja Háskóla Íslands í Háskólabíói, LEGO-hönnunarkeppni grunnskólanema, vísindakeppnin Ungir vísindamennog Biophila-menntaverkefnið sem Háskóli Íslands hefur þróað í samstarfi við söngkonuna Björk Guðmundsdóttur, Reykjavíkurborg og mennta- og menningarmálaráðuneytið og hefur nú hafið útrás annars staðar á Norðurlöndum.

Vísindadagur Verkfræði- og náttúruvísindasviðs
Guðrún Bachmann, Hilmar Bragi Janusson og Ari Ólafsson