Forritunarnámskeið fyrir kennara

Vísindasmiðjan tekur þátt í norræna samstarfsverkefninu SciScills 2.0 um þróun forritunarnámskeiðs fyrir kennara. Í verkefninu munum við m.a. byggja á reynslu okkar af forritunarkennslu grunnskólanemenda í Háskóla unga fólksins og Háskólalestinni og fyrir leiðbeinendur í Lego forritunarkeppninni.

Við ætlum að keyra fyrstu útgáfu af kennaranámskeiðinu í lok janúar 2018 og leitum að áhugasömum kennurum til að taka þátt í því með okkur. Hámarksfjöldi þátttakenda er 12.

Námskeiðið er ókeypis og stendur yfir í tvo hálfa daga: 22. og 23.janúar, kl. 13-16.

Megináherslan verður á verklega nálgun og skiptist námskeiðið í þrjá meginhluta: 

  • Forritun sem verkfæri í hefðbundnum fögum. Schratch forritunarumhverfið. Þátttakendur kynnast og spreyta sig á notkun forritunar í kennslu rúmfræði og tónfræði.
  • Micro:bit forritun. Farið verður yfir notkun og möguleika micro:bit tölvanna, kynnt einföld verkefni til að hjálpa nemendum við að stíga sín fyrstu skref og hvernig byggja megi á þeim fyrir nemendastýrð verkefni.
  • Forritun áþreifanlegra hluta. Micro:bit og Raspberry Pi tölvur eru tengdar við perur og rafmótora og forritaðar til að stýra þeim. Tækin gerð gagnvirk með því að forrita þau til að lesa af ýmis konar skynjurum.

Þátttakendur geta fengið micro:bit og Raspberry Pi tölvur að láni að námskeiði loknu.

SciScills er styrkt af NordPlus og verkefnið leggur m.a. áherslu á að hvetja stelpur enn frekar áfram í forritun. Við leitum því að kennurum sem hafa reynslu af Hypatia verkefninu eða samstarfi við Skema. Það er þó alls ekki skilyrði og öllum velkomið að sækja um!

Umsóknarfrestur er til og með 5.janúar 2018, en við hvetjum alla áhugasama til þess að sækja um sem fyrst, því einungis 12 komast að.

Sótt er um hér.