Háskóli Íslands

Frábær vetur að baki

Starfsfólk Vísindasmiðju Háskóla Íslands er nú farið í sumarfrí eftir annasaman vetur. Starfið í smiðjunni hófst í haust þegar ný smiðja var opnuð eftir breytingar og stækkanir. Opnum dögum í smiðjunni var fjölgað úr þremur í fjóra og bættist vinnustofa í vindmyllusmíði við það fjölmarga skemmtilega sem boðið er upp á í smiðjunni. Vísindasmiðjan er í samstarfi við ýmsa aðila utan HÍ og er það Landsvirkjun sem styður vindmyllusmíði og kynningu á orkufræðum í smiðjunni.

Vísindasmiðjan tók þátt í þónokkrum opnum viðburðum á liðnum vetri, svo sem Vísindadögum Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, Háskóladeginum og Vísindasýningu EuroScienceFun. Rúsínan í pylsuendanum var svo þegar starfsfólk Vísindasmiðju ferðaðist um landið með Háskólalestinni líkt og fyrri ár. Í maí voru fjórir staðir heimsóttir: Búðardalur, Blönduós, Stykkishólmur og Vogar, og fékk áhöfn lestarinnar einstaklega góðar móttökur á öllum þessum stöðum.

Við þökkum fyrir samfylgdina í vetur og hlökkum til að hitta fleiri fróðleiksfús börn næsta vetur. Vísindasmiðjan mun opna í haust og verður nánari tímasetning auglýst síðar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is