Hver er dýrasti steingervingur í heimi?

Hressir nemendur úr Kópavogsskóla heimsóttu Vísindasmiðjuna í morgun, þar sem þeir fengu meðal annars að fræðast um jarðfræði. Eftir heimsóknina sendi einn nemandinn úr hópnum Vísindasmiðjunni spurningu um hver væri eiginlega dýrasti steingervingur í heimi. Snæbjörn jarðfræðikennari er með staðreyndirnar á hreinu og hér á eftir kemur svarið.

Dýrasti steingervingur í heimi er stærsta og heillegasta beinagrind sem fundist hefur af Tyrannosaurus rex, eða grameðlu eins og hún hefur verið nefnd á íslensku. Beinagrindin fannst árið 1990 í Suður Dakóta í miðríkjum Bandaríkjanna og er nefnd Sue eftir Sue Hendrickson, en hún er bandarískur steingervingafræðingur sem uppgötvaði beinagrindina.

Árið 1997 var beinagrindin boðin upp og var hún keypt af náttúruminjasafni í Chicago, Field Museum of Natural History, með fjárhagsaðstoð stofnana, fyrirtækja og einstaklinga. Uppboðið á beinagrindinni hófst í 500 þúsund dollurum en um tíu mínútum síðar lagði náttúruminjasafnið fram síðasta boðið upp á um 7,6 milljónir dollara (sem eru um 1,5 milljarðar íslenskra króna á núvirði) og eignaðist það þar með beinagrindina. Beinagrindin af grameðlunni Sue er til sýnis í safninu í Chicago, og er hún yfir 12 metrar á lengd og gnæfir um 4 metra yfir safngólfinu. Hægt er að sjá myndir og lesa um Sue á heimasíðu safnsins.