Háskóli Íslands

Róló Pendúla

Listræna rólan Róló Pendúla er alveg eins og venjuleg leikvallaróla nema að því leyti að við hana er búið að bæta penna á hreyfanlegri löm og teikniborði fyrir listaverkin.

Þótt reynsla okkar af leikvöllum kunni að segja okkur að rólur sveiflist fram og til baka sýnir Róló Pendúla að tilveran er öllu flóknari og fallegri en svo.

Pendúlar

Rólur líkjast einföldum pendúl að því leyti að þær eru með eitthvað þungt sem getur sveiflast fram og til baka. Þegar pendúl er sleppt, sveiflast hann almennt í sporöskju en lögun hennar breytist ekkert. Pendúllinn getur líka sveiflast í beina línu eða hring, en það eru í raun bara sértilbrigði af sporöskjunni.

Lykilatriðið fyrir mynstrin sem Róló Pendúla teiknar eru tíðnirnar sem hún getur sveiflast á. Tíðni pendúls segir hversu hratt hann sveiflast fram og til baka, og ákvarðast af lengd hans. Þannig sveiflast stuttur pendúll hraðar en langur. Þetta þekkir sumt tónlistarfólk eflaust af taktmælum sem eru í raun bara pendúlar og takturinn stilltur með því að stilla lengdina.

Ósamhverfur pendúll

Róló Pendúla er þó ekki einfaldur pendúll. Ósamhverfur í upphengjunum valda því að lengd rólunnar er eilítið ólík eftir því í hvaða átt rólan sveiflast. Það má því líta á hana sem tvítóna pendúl því hún hefur tvær tíðnir eftir sveiflustefnu. Þegar þessar meginstefnur rólunnar eru í takt sveiflast rólan í beina línu, annars í sporöskju eða hring. Ferillinn er þó síbreytilegur vegna þess að tíðnin er ólík og því eru stefnurnar sífellt að lenda í og úr takti.

Þannig ferðast hreyfing rólunnar á milli meginása og skiptir um stefnu þeirra á milli.

Y-pendúllinn, frændi Róló

Til er einfaldari útgáfa af Róló Pendúlu sem sveiflast í samsvarandi munstur þótt ekki sé neinn penni tengdur við þann pendúl. Hann er hengdur upp í tvær upphengjur og spottinn tekinn saman stuttu neðar. Þetta veldur því að pendullinn er mislangur eftir því hvort hann sveiflast þvert á upphengjurnar eða samsíða þeim, en þá hreyfist ekkert fyrir ofan hnútinn.

Sé pendúlnum sleppt í stefnu mitt á milli þessara meginása pendúlsins leggjast þeir saman og pendullinn snýst í samsvarandi mynstur og Róló Pendúla.

Mynstrið

Sé mikill munur á lengdum pendúlsins snýst sporaskjan hratt en eins má þétta munstrið með því að minnka muninn. Í tilviki Rólo Pendúlu er það mismunur í krappa hringjanna og karabínanna sem rólan hangir í sem veldur þessum mun á sveiflutíma rólunnar. Það er hægt að breyta muninum með því að snúa upp á upphengjurnar eða toga þær saman.

Annað sem gerir myndir Róló Pendúlu svona fallegar er það að útslagið er sífellt að minnka. Því veldur aðallega viðnám í upphengjunum en eitthvað er vegna loftmótstöðu og núnings í pennanum þegar hann dregst eftir síðunni.

Þetta veldur orkutapi í sveiflunni sem minnkar sveifluna jafnt og þétt. Við getum ekki losnað algerlega við þetta orkutap en til að hægja á þvi getum við hlaðið lóðum á róluna svo hún hafi meiri orku til að byrja með.

Hviður í hljóði

Mynstur lík því sem Roló Pendúla dregur svo listilega má finna hvarvetna þar sem tvær sveiflur blandast saman. Þannig geta hljóðbylgjur líka blandast saman og ef tveir likir tónar eru spilaðir myndast svokallaðar hviður þar sem tónarnir annað hvort styrkja hvor annan (þegar þeir eru í takt) eða eyða hvor öðrum (þegar þeir eru úr takti).

Tíðni þessara hviða ræðst af muninum í tíðni (eða tónhæð) hljóðsins. Ef tónarnir eru líkir (líkt og með mynstur y-pendúlsins) verður hæg breyting og hægar hviður. Sé munurinn mikill verður hröð breyting þannig að almennt heyrum við ekki hviðurnar sem myndast á milli ólíkra tóna.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is