Segulsvið

Segulsvið eru allstaðar í kringum okkur öllum stundum án þess að við tökum neitt eftir því. Segulsvið eru til dæmis í kringum segla, en rafstraumur býr líka til segulsvið. Við erum ávallt stödd í segulsviði því jörðin er nefnilega einn stór segull. En hvernig virka segulsvið frá seglum?

Allir seglar hafa tvo póla, norður -og suðurpól. Ekki er hægt að einangra hvorn pól, ef segull væri brotinn í tvennt myndi hvor helmingur líka hafa norður -og suðurpól. Jörðin er segull og hefur því segul suðurpól og segul norðurpól, sem ætti ekki að rugla saman við landfræðilega norður -og suðurpól jarðar.

Sum dýr geta fundið fyrir segulsviðum, til dæmis nota farfuglar segulsvið jarðar til að rata á milli staða. Hinsvegar getum við mannfólkið ekki fundið fyrir segulsviði, og ekki hefur verið sýnt fram á að segulsvið í hversdagslegu lífi okkar geti haft áhrif á heilsu okkar.

Nálar í áttavitum benda í norður, því þær snúast eftir segulsviðinu sem þær eru í. Áttavitanálar snúast eftir ytra segulsviði því þær eru úr járnseglandi efni, dæmi um efni sem eru járnseglandi við stofuhita eru járn, kóbalt og nikkel. Járnseglandi efni eru til dæmis í ísskápahurðum, þannig festast ísskápaseglar við þær. Allir málmar verða fyrir áhrifum frá segulsviðum en áhrifin eru mismikil.