Fjölskyldudagur Verkfræðingafélagsins

Verkfræðingafélag Íslands, styrktar- og samstarfsaðili Vísindasmiðjunnar, bauð félagsmönnum sínum sem og öllum gestum Fjölskyldu- og húsdýragarðsins í sannkallaða vísindaveislu sunnudaginn 1.september.

Þar mættu fulltrúar Vísindasmiðjunnar og settu upp farandsýningu í tilefni af þessari árlegu fjölskylduhátíð Verkfræðingafélagsins. Í Vísindasmiðjunni voru í boði tilraunir, þrautir, tæki, tól, leikir og óvæntar uppgötvanir fyrir alla aldurshópa.

Gestir gátu meðal annars kynnst undraverðum eiginleikum ljóss, lita, hljóðs og rafmagns, teiknað listaverk með rólu, leikið á syngjandi skál, smíðað vindmyllur, lóðað og margt fleira. Öll fjölskyldan gat upplifað vísindin með lifandi hætti, uppgötvað og leikið sér af hjartans lyst.