Guðrún Höskuldsdóttir tekur þátt í dagskrá með Nóbelsverðlaunahöfum

Guðrún Höskuldsdóttir, leiðbeinandi í Vísindasmiðjunni hefur verið valin úr stórum hópi ungra vísindamanna víða um heim til þess að sækja vikulanga dagskrá með hátt í 70 Nóbelsverðlaunahöfum í Þýskalandi í sumar. 

Guðrún er BS-nemi í verkfræðilegri eðlisfræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Hún hefur m.a. starfað sem leiðbeinandi í Vísindasmiðjunni og Háskólalestinni þar sem hún hefur miðlað undrum vindorkunnar til grunnskólanema í svokölluðum Vindmyllusmiðjum.
Hún hlaut styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands þegar hún hóf nám við Háskóla Íslands árið 2017 og síðastliðið sumar hlaut hún enn fremur styrk úr svokölluðum Kiyo og Eiko Tomiyasu sjóði til að vinna að sumarverkefni við einn fremsta rannsóknarháskóla heims, California Institute of Technology – Caltech í Kaliforníu. Á haustmisseri 2019 dvaldi Guðrún sem skiptinemi við Kunglinga Tekniska Högskolan (KTH), einn fremsta tækniháskóla Norðurlanda, en hún brautskráist með BS-próf frá Háskóla Íslands á vori komanda.

Dagskráin nefnist The Lindau Nobel Laureate Meetings og hefur verið haldin í bænum Lindau í Þýskalandi frá árinu 1951. Viðburðurinn í ár er þverfræðilegur en þar koma saman tugir Nóbelsverðlaunahafa á sviði líf- og læknavísinda, eðlisfræði og efnafræði og eiga samtal við framúrskarandi vísindamenn framtíðarinnar, bæði háskólanema í grunn- og framhaldsnámi og nýdoktora, og veita þeim innblástur til góðra verka. 

Í ár, á 70 ára afmæli viðburðarins, bauð valnefnd 650 ungum vísindamönnum frá 101 landi til þátttöku en viðburðurinn, sem fer fram 28. júní til 3. júlí, samanstendur af fyrirlestrum, umræðufundum, masterklössum og pallborðsumræðum.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirritaði sl. haust fyrir hönd skólans samkomulag við Lindau-stofnunina, sem heldur utan um viðburðinn, um að gerast samstarfsaðili (e. academic partner) en það var gert í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið og Rannís. Í framhaldinu gafst skólanum færi á að tilnefna nemendur til þátttöku í viðburðinum en úr hópi allra tilnefndra velur stofnunin þá sem þykja standa fremst, í ítarlegu valferl

Tveir nemendur Háskóla Íslands voru valdir til þátttöku á viðburðinum og styrkir Háskólinn þá til fararinnar.

https://www.hi.is/frettir/ungir_framurskarandi_visindamenn_a_leid_til_fu...