Háskóladagurinn 2020

Háskóladagurinn árið 2020 var haldinn hlaupársdaginn 29. febrúar og opnuðu þá háskólar landsins dyr sínar og sýndu hvað þeir eru með á boðstólum fyrir áhugsamt fólk sem hyggur á háskólanám. Vísindasmiðja Háskóla Íslands lét að vanda ekki sitt eftir liggja og bauð gestum og gangandi upp á opið hús þar sem hægt var að skoða og reyna eðlisfræðilegar uppstillingar, leysa þrautir, spjalla við Stjörnu-Sævar um undur Alheimsins, og sjá nokkrar vel valdar sýnitilraunir Sprengju-Kötu.

Starfsfólk Vísindasmiðjunnar þakkar þeim sem litu við og hlakkar til að sjá sem flest aftur að ári!