Hátíðarkveðja

Árið 2019 hefur svo sannarlega verið viðburðarríkt hjá Vísindasmiðju Háskóla Íslands.

Vísindasmiðjan hefur frá fyrsta degi, í mars 2012, verið nær uppbókuð og hafa færri komist að en vilja. Þangað hafa nú komið um 25 þúsund skólabörn og er smiðjan opin skólahópum af öllu landinu, skólum og börnum að kostnaðarlausu.
Núna tekur Vísindasmiðjan árlega á móti um 6.000 grunnskólanemum + um 250 kennurum.

Auk skólahópa tók Vísindasmiðjan á móti gestum á öllum aldri á opnum viðburðum á menningar- og  menntastofnunum og almannarýmum, svo sem Hörpu, Fjölskyldu- og húsdýragarði og á bókasöfnum .Gestir á slíkum viðburðum eru nú um 4 þúsund á ári og fer ört fjölgandi.

Þá eru ótaldir gestirnir í ferðum Háskólalestarinnar, en Vísindasmiðjan breytist í farandsmiðju vor hvert og  ferðast um land allt með Háskólalestinni.  Í ferðum lestarinnar býðst landsmönnum í dreifðum byggðum að kynnast vísindum með aðgengilegum hætti og jafnast þannig tækifæri og aðgangur landsmanna að þekkingu og fræðum. Starfsmenn Vísindasmiðjunnar eru kennarar og nemendur HÍ og fá háskólanemar sem þar starfa einstaka þjálfun í vísindamiðlun meðfram sínu námi.

Nýlega braut Vísindasmiðjan blað í sögu barnamenningar á Íslandi þegar hún fékk veglegan styrk úr nýstofnuðum Barnamenningarsjóði Íslands (3.7 millj kr.) vegna dagskrár í Hörpu veturinn 2019-2020. Þar mætast listir og vísindi á skapandi og lifandi máta og má segja að með þessum áfanga hafi vísindin verið viðurkennd sem hluti af menningu barna og nú geta börn á öllum aldri kynnst þeim af eigin raun í stærsta menningarhúsi landsins.

Í haust hlaut svo Vísindasmiðjan vísindamiðlunar viðurkenningu RANNÍS sem afhent var við opnun Vísindavöku Rannís laugardaginn 28. september 2019

Vísindasmiðjan hefur undanfarið verið í nánu samstari við Fab Lab Reykjavík og Nýsköpunarmiðstöð Íslands um nýsköpunarkeppnina MeMa (Menntamaskínan), starfar með KrakkaRÚV að gerð þátta um vísindi fyrir börn (VÍSUNDUR), tekur þátt í verkefninu LÁN (Listrænt ákall til náttúrunnar) og margt fleira.

Lögð er áhersla á að tvinna Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna inn í starfsemi og verkefni Vísindasmiðjunnar og hafa loftslags- og umhverfismál fengið sérstakan sess, eins og sjá má m.a. í ofangreindum samstarfsverkefnum.

Kærar jólakveðjur,

starfsfólk Vísindasmiðjunnar