Vísindaleikir í vetrarfríi

Vísindasmiðjan tók á ný þátt í Vísindaleikjum í vetrarfríi; dagskrá fyrir börn starfsfólks Háskóla Íslands í vetrarfríinu. Viðburðurinn var með hefðbundnu sniði. Um 70 börn á aldrinum 6-12 ára mættu og var skipt í þrjá hópa. Hóparnir fóru svo í hringekju um þrjár stöðvar og var ein þeirra Vísindasmiðjan.

Þar buðum við hverjum hópi upp á vinnusmiðju eftir aldri. Yngsti hópurinn föndraði vélar sem knúnar voru rafmótor, miðhópurinn leysti tvær verkfræðilegar þrautir, og sá elsti bjó til bíl sem knúinn var músagildru. Að verkefnunum loknum fengu þátttakendur að fara í Vísindasmiðjuna.

Eftir að hóparnir höfðu klárað allar stöðvarnar var þeim svo boðið í bíó upp á kvikmyndina Dagfinn dýralækni, en að henni lokinni fengu börnin að leika sér í Vísindasmiðjunni og þeim þrautum og leikföngum sem voru sett fram af tilefninu.