Fjarsmiðjur á tímum COVID-19

Enn heldur COVID-19 faraldurinn áfram að leggja stein í götur okkar og í byrjun október varð Vísindasmiðjan að loka fyrir mótttöku skólahópa. Hinsvegar brugðum við á það ráð að þessu sinni, til að koma til móts við þá skólahópa sem áttu bókað, að láta reyna á fjarsmiðjur; þ.e. vinnusmiðjurí formi fjarfundar.

Fjórar ólíkar smiðjur urðu fyrir valinu: Stjörnufræði með Martin, heimsmarkmiðin með Sólrúnu, efnafræði með Kötu og DNA einangrun með Jóa.

Skólarnir hafa tekið vel í þessa nýjung, að sjálfsögðu hafa aðstæður verið ólíkar í skólunum, en bæði leiðbeinendur smiðjunnar og kennarar í skólunum hafa staðið sig frábærlega og leyst úr þeim tæknilegu áskorunum sem hafa komið upp. 

Fjarsmiðjur geta aldrei komið í stað heimsóknar þar sem krakkarnir fá að upplifa, reyna og prófa á staðnum, en þær hafa reynst kærkomin viðbót og gott uppbrot á þessum undarlegu tímum.

Við hlökkum til að geta tekið aftur á móti skólahópum, vonandi sem fyrst, en stefnum jafnframt á að þróa fjarsmiðjurnar enn frekar. Þær smiðjur geta til dæmis nýst vel fyrir hópa utan höfuðborgarsvæðisins sem ekki sjá sér fært að koma í heimsókn til okkar.