Kennarasmiðjur

Vísindasmiðjan heldur reglulega vinnusmiðjur fyrir kennara. Haustið 2019 voru haldnar fjórar vinnusmiðjur fyrir kennara á grunn- og framhaldsskólastigi. Stefnt er að því að halda fleiri smiðjur veturinn 2019-20 og verða þær auglýstar strax og dagsetning er komin á þær.

Ljósakassinn

Sameinuðu þjóðirnar útnefndu árið 2015  sem Alþjóðlegt ár ljóssins með það að markmiði að vekja fólk tilvitundar um hlutverk ljóss og ljóstækni í daglegu lífi. Háskóli Íslands fagnaði þessu með margvíslegum hætti og var m.a. opnað sérstakt ljósaherbergi í Vísindasmiðjunni.

Náttúran í gegnum linsuna

Efling á áhuga og skilningi nemenda á náttúrufræði með notkun ljósmyndunar og myndbandstækni

Menntavísindasvið Háskóla Ísland í samstarfi við Vísindasmiðju Háskóla Íslands býður upp á námskeið í notkun ljósmyndunar og myndbandstækni í náttúrufræðikennslu.

Námskeiðið er að mestu verklegt. Unnið verður með þemað „Vorkoman í hverfinu“ en markmiðið er að þátttakendur geti útfært sambærileg verkefni á einfaldan hátt í sinni kennslu. Þátttakendur fara út og safna myndefni sem svo verður unnið úr með mismunandi myndvinnsluaðferðum.

Líkanagerð og mælingar

Vinnusmiðja fyrir kennara á framhaldsskólastigi í notkun forritunar til líkanagerðar og mælinga.

Notuð verða forritunarmálin Processing og Python og gagnleg verkfæri í kennslu kynnt til sögunnar. Verkefnin eru bæði eftir forskrift og opin þar sem þátttakendur leysa verkefni án þekktrar lausnar.

 

Rafrásir og tækjaforritun

Námskeiðið er eins dags námskeið og tekur fyrir nokkur efni til þess að búa til einföld en skemmtileg verkefni með skynjurum, rofum, ljósum og mótorum.

Farið verður yfir grunnhugtök í gerð rafrása; spennu, straum og viðnám, auk hliðtengingar og raðtengingar íhluta. Þessi fimm hugtök eru nægjanleg til að skilja verkefnin sem farið er í og velja hentuga íhluti í ný verkefni.

SciSkills 2.0 forritunarsmiðja

Þessi kennarasmiðja er hugsuð sem kynning á nokkrum inngangsverkefnum sem hægt er að vinna með nemendum án mikils tilkostnaðar eða undirbúnings. Verkefnin eru:

  • Samþætting forritunar og hefðbundinna námsgreina með Scratch
  • Tækjaforritun með Scratch á Raspberry Pi tölvum
  • Microbit forritun og efnið á Kóðinn.is

Námskeiðið er keyrt í tveimur þriggja klukkutíma hlutum, ýmist á tveimur eftirmiðdögum eða einum degi (Dæmi um dagskrá).

Inngangur að Sphero

Sphero Sprk+ er lítill þjarkur sem ekur um inni í kúluskel. Honum má stýra með fjarstýringu eða með því að skrifa forrit og senda það yfir á þjarkinn.

Á síðustu árum hafa komið fram margar gerðir þjarka sem henta vel til forritunarkennslu. Hver þeirra hefur ákveðna kosti og galla. Sphero er smár, kvikur og með afar skemmtilega hönnun þar sem þjarkurinn sjálfur ekur um í kúluskelinni eins og hamstur.

Kennaradagar vorið 2017

Vorið 2017 voru haldnir svokallaðir Kennaradagar í Vísindasmiðju Háskóla Íslands. Um þrjátíu grunnskólakennarar fengu boð um að sækja kennaradaga og kynnast því nánar hvernig starfsfólk Vísindasmiðjunnar tekur á móti grunnskólahópum og fjallar um sínar sérgreinar. Um morguninn kynntist hópurinn dagskránni í efnafræði, jarðfræði og eðlisfræði; og eftir hádegi var stjörnufræðin kynnt og Ljósakassi Vísindasmiðjunnar.