Það var dásamlegt að fylla heimkynni Vísindasmiðjunnar aftur með gleði barna í síðustu viku þegar við fengum hóp barna frá leikskólanum Sæborg í heimsókn. En þau voru hér mætt til að hlusta á jarðeðlisfræðinginn Magnús Tuma Guðmundsson, prófessor við Háskóla Íslands, fræða þau um jökla og jöklarannsóknir.
Krakkarnir hafa verið að vinna með jöklaþema síðustu vikur undir handleiðslu Jelenu Bjeletic deildarstjóra og öðrum kennurum og mun grein eftir Jelenu birtast í InSEA tímariti listkennara um þessa vinnu þeirra. Heimsóknin er hluti af LÁN verkefninu, sem Vísindasmiðjan tekur þátt í, eða Listrænt ákall til náttúrunnar, þar sem unnin eru verkefni sem tvinna saman náttúrufræði og listgreinar með sjálfbærni og umhverfisvitund í brennidepli og styður við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Við hlökkum til að hitta þau aftur í þessari viku en þá ætla þau að koma aftur og hitta listakonuna Önnu Líndal sem mun vinna skúlptúra með þeim.
Það var frábært að fylgjast með einlægum samskiptum barnanna við prófessor Magnús Tuma:
Barn: Erum við að fara að horfa á auglýsingar?
Barn: Hvað gerir maður ef maður hittir ísbjörn á jöklinum?
Magnús Tumi: Það eru ekki ísbirnir á Íslandi.
Barn: Jú víst!
Magnús Tumi: Nú hvar?
Barn: Nú á Norðurpólnum!
Magnús Tumi: Sjáið þið, hér sést í Snæfellsjökul (sýnir mynd tekna úr Vesturbænum).
Barn: Já einmitt, ég á sko heima í þessum fallega bæ.
Magnús Tumi: Afhverju skyldu jöklarnir virðast svona litlir þegar við horfum á þá langt í burtu?
Barn: Nú afþví að við erum svo stór!
Barn: Ég elska hárið á þér!
Magnús Tumi: Nú viltu þá ekki bara fá það? Æ nei það er víst fast.
Magnús Tumi: Við festum okkur alltaf saman með böndum þegar við förum á jökulinn ef það skyldu vera sprungur sem hægt er að detta ofan í.
Barn: Ég fór á fjall, það var fullt af sprungum og við vorum sko ekkert bundin saman.