Upphaf vetrar og nýjar smiðjur

Vísindasmiðjan er nú komin á flug eftir opnun fyrir móttöku hópa á þriðjudaginn í síðustu viku. Við höfum tekið inn nokkra nýja leiðbeinendur og aðrir hafa tekið við vaktstjórn. Vanir gestir Smiðjunnar munu þó enn þekkja þó nokkra reynslubolta þegar þau sækja okkur heim.

Við erum alltaf spennt fyrir því að þróa nýjar smiðjur og erum með tvær nýjar í haust. Önnur er stærðfræðismiðja þar sem gestir vinna með ólíkar aðferðir til að þekja tvívíðan flöt með reglulegum og óreglulegum formum. Um smiðjuna sér Nanna Kristjánsdóttir en hún er nemi í stærðfræði og hefur m.a. séð um verkefnið Stelpur diffra.

Hin smiðjan er í höndum Sæunnar Júlíu Sigurjónsdóttur sem hefur nýlokið grunnnámi í líffræði og situr í stjórn Ungra umhverfisverndarsinna. Smiðjan fjallar einmitt um umhverfismál þar sem gestir ígrunda með Sæunni neyslu nærsamfélagsins og hvað við getum öll gert til að bæta þennan heim sem við búum öll saman í.

Við bjóðum svo enn upp á vinsælu efnafræði- og stjörnufræðismiðjurnar sem Katrín Lilja og Martin sjá um, en einnig kemur stór hópur annars starfsfólks Vísindasmiðjunnar að móttöku gesta líkt og að leiðbeina gestum við hinar ýmsu stöðvar Smiðjunnar.