Vísindasmiðjan á Vísindavöku Rannís í Laugardalshöll

Vilt þú kynnast vísindum af öllu tagi? Heppnin er með þér því það er loksins komið að einum skemmtilegasta viðburði haustsins; Vísindavöku Rannís í Laugardalshöll sem verður haldin laugardaginn 30.september.

Okkar eigin Katrín Lilja eða Sprengju-Kata opnar hátíðina með skemmtilegri efnafræðitilraun, eins og henni einni er lagið. Vísindasmiðjan verður á sínum stað með listrænu Róló Pendúla, snúningspallinn, furðuspegla, landslagssandkassann, speglabrunninn, ljós og liti, söngskálina og margt fleira. Á Vísindavökunni kynnir vísindafólk úr Háskóla Íslands verkefni og rannsóknir um allt mögulegt, til dæmis um mál og tækni, bragðlaukaþjálfun, mælingar á stökkkrafti og styrk, jarðskjálfta og eldvirkni. Það verða meira að segja sjúkir sebrafiskar, maurar, krabbadýr, krossfiskar og heilmargt fleira.
Okkur til mikillar ánægju bætist Bangsaspítalinn í hópinn í ár og býðst börnum á öllum aldri að koma með slasaða bangsa til aðhlynningar hjá læknanemum Háskóla Íslands. Allir fá viðeigandi meðferð og hljóta bata á skömmum tíma! Hraustir bangsar eru þó líka velkomnir í heimsókn! Þeir geta t.d. farið í viðtal um daginn og veginn fyrir framan myndavél í HÍ sjónvarpinu.
Ef þig langar að sjá lífið í sjónum, taka skref í átt að sýndarheimum eða læra meira um endurlífgun með Bjargráði félagi læknanema, þá skaltu ekki þá láta þig vanta í Höllina þann 30. september næstkomandi kl. 13 til 18. Aðgangur er að sjálfsögðu ókeypis.
Hlökkum til þess að sjá ykkur í lifandi og skemmtilegu umhverfi.