Kúluspeglar

Huldugrísinn

Huldugrísinn okkar er gott dæmi um það hvernig hægt er að varpa spegilmyndum fram og til baka og búa til áhugaverðar spegilmyndir.

Grísinn situr í botni íhvolfs spegils sem liggur flatur. Ofan á spegilinn er lagður annar íhvolfur spegill með gati í miðjunni. Þegar horft er í gatið sést spegilmynd gríssins, en vegna þess hvernig geislarnir speglast á milli speglanna frá grísnum til augna okkar virðist hann fljóta í lausu lofti ofan við gatið. Í raun eru þetta bara spegilmyndin!

Við erum vön því að spegilmyndir sé að finna „inni í“ speglunum. Það er m.ö.o. eins og handan spegilflatarins sé eins konar spegilveröld. Þetta náttúrulögmál gildir þó aðeins fyrir flata spegla, og með því að sveigja spegilinn til getum við fært spegilmyndina til; jafnvel „út“ úr speglinum eins og í tilviki huldugríssins.

Oft benda gestir á að þarna sé um "þrídí" (þ.e. 3D eða þrívídd) að ræða. Það er vissulega rétt ... að sama marki og að grísinn sjálfur er í þrívídd. Spegilmyndin hefur þó ekkert með þrívíddarmyndir eða almyndir (e. hologram) að gera; spegilmyndin er bara það: spegilmynd. Það sem gerir hana hins vegar svona undarlega, og því merkilega, er það að hún er okkar megin spegilflatarins og því þykir okkur hún kannski eitthvað upphleyptari. Venjulegar spegilmyndir í flötum speglum eru þó líka í þrívídd, þótt við getum ekki snert þær.

Kúluspegillinn

Annar spegill sem sýnir svipaða virkni er svarti kúluspegillinn inni í ljósfræðiherberginu. Það er íhvolfur spegill með afar stuttan krapparadíus. Í honum sést umhverfið allt á hvolfi en þegar hendi (eða eitthvað annað) er rekin inn að speglinum kemur spegilmyndin á móti manni út úr spegilfletinum. Hér er einnig um að ræða spegilmynd.

Þegar við horfum á hlut í flötum spegli virðist okkur sem spegilmyndin vera upprétt og handan spegilflatarins. Slíka mynd köllum við launmynd. Launmyndir sjást einnig í kúptum speglum sem og í íhvolfum speglum þegar frummyndin (hluturinn) er innan brennivíddar spegilsins. Sé frummyndin fjær íhvolfa speglinum en brennivídd hans, sjáum við svokallaða raunmynd okkar megin spegilsins sem lítur út fyrir að vera raunverulegur hlutur.