Eftir tveggja ára hlé blés Verkfræðingafélag Íslands aftur til fjölskyldudags í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardalnum. Vísindasmiðjan var að vanda með vísindasýningu en Verkfræðingafélagið hefur um árabil verið ötull stuðningsaðili Vísindasmiðjunnar.
Veðurblíðan var með eindæmum; bjart og hlýtt og stöðugur straumur fólks í garðinum. Því var hentugt að af nógu var að taka í skálanum sem Vísindasmiðjan stillti sér upp í. Gestum og gangandi var boðið upp á úrval gagnvirkra uppstillinga þar sem meðal annars var hægt að kveikja á útvarpi með því að senda rafstraum í gegnum líkamann, teikna mynd með rólu, setja saman vindmyllu skoða sig í hitamyndavél, og fræðast um ýmis áhugaverð fyrirbæri hjá þeim Sprengju-Kötu og Ara Ólafs.