Vísindasmiðjan hefur opnað fyrir skráningar skólahópa fyrir skólaárið 2023-2024.
Tekið verður á móti hópum frá og með 19. september en framboðið í vetur verður að venju fjölbreytt og meðal þeirra vísindagreina sem nemendur kynnast eru eðlisfræði, líkindareikningur, orkufræði, efnafræði og vindmyllusmíði.
Opið verður fjóra daga vikunnar: þriðjudaga, miðvikudaga, fimmtudaga og föstudaga kl. 9:00 til 13:00. Skráning heimsókna fer fram hér á heimasíðunni okkar undir „Bóka tíma“. Hámarksfjöldi í hverri heimsókn er 25 nemendur og tekur heimsóknin um 90 mínútur. Við vekjum athygli á því að heimsóknin nýtist best nemendum í 5. – 10. bekk. Í ljósi reynslunnar hvetjum við kennara til þess að bóka heimsókn með góðum fyrirvara því tímarnir eru fljótir að fyllast. Aðgangur er sem fyrr ókeypis.
Við hlökkum mikið til þess að sjá ykkur!