Kristín Ingibjörg Magnúsdóttir, nýnemi í eðlisfræði við Háskóla Íslands, hefur bæst við öflugan hóp starfsfólks Vísindasmiðju HÍ. Kristín er meðal 34 framúrskarandi námsmanna sem á dögunum hlaut styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta við athöfn í Hátíðasal HÍ. Styrkhafar eiga það sameiginlegt að hafa náð góðum árangri í námi til stúdentaprófs, hafa verið öflug í félagsstörfum, listum eða íþróttum og sýnt fádæma seiglu.
Teymi Vísindasmiðjunnar óskar Kristínu Ingibjörgu innilega til hamingju með styrkinn og hlakkar mikið til samstarfsins í vetur en allir sem starfa í smiðjunni eru annaðhvort nemendur eða kennarar Háskóla Íslands.
Á heimasíðu Háskólans er fjallað nánar um styrkhafana en þar segir að Kristín Ingibjörg útskrifaðist vorið 2022 frá Menntaskólanum í Reykjavík. Frá níu ára aldri hefur Kristín æft borðtennis og leikið bæði með unglingalandsliðum og A-landsliðinu. Þá var hún í landsliði Íslands í eðlisfræði í fyrra og sótti Alþjóðlegu ólympíukeppnina. Því til viðbótar spilar Kristín á saxófón.