Söngskálin er einföld skál sem er gædd þeim eiginleika að geta sveiflast nokkuð vel án þess að sveiflan dofni. Titringur í flestum skálum dofnar það hratt að það er óvenjulegt að hægt sé að magna hann upp svo þær syngi.
Spilað er á skálina með því að nudda handföngin með blautum lófunum. Gott er að gæta þess að hendurnar séu lausar við óhreinindi og puttafeiti (þvoið ykkur því með sápu) svo það náist tónn úr skálinni því feitin og álíka gerir handföngin svo sleip að það næst ekki að mynda neinn titring.
Þrýstu lófunum niður á handföngin en ekki of fast, reyndu að strjúka með sívaxandi krafti þar til skálin byrjar að syngja. Gættu líka að hraðanum; ef þú strýkur of hratt nærðu engum söng. Þegar handföngin eru strokin titrar húðin við það að hún grípur og rennur hratt á víxl. Þessi titringur sendir hraða púlsa eftir handföngunum og niður í skálina þar sem þeir endasendast hring eftir hring. Ef titringurinn er á réttri tíðni, þannig að hann hittir rétt á púlsana sem á undan fóru í skálina, leggst hann við þá og magnar þannig upp titringinn. --
Þegar skálin er byrjuð að synga vert að gefa því gaum að titringurinn í skálinni er ekki jafn um hana alla. Sumstaðar titrar skálin greinilega mikið en varla neitt annarsstaðar. Þetta sést af titringinum í vatninu en það er einnig hægt að finna þetta með því að leggja fingurgóm létt að rönd skálarinnar og renna honum eftir henni á meðan einhver annar strýkur handföngin.
Það eru aðallega fjögur svæði þar sem sveiflan verður mest. Þetta er vegna þess að skálin er að svigna til og frá þannig að tveir mótstæðir óróleikablettir skálarinnar svigna inn í skálina á meðan hinir tveir svigna út—og svo öfugt. Þannig verða til rólegir blettir mitt á milli tveggja aðliggjandi óróleikasvæða en það er það sem myndar rólega krossinn í yfirborði vatnsins.