Útvarpsrafrás

Hefur þú fengið straum? Eða öllu heldur: Hefur þú tekið eftir því að þú hafir fengið straum? Við tengjum rafstraum iðulega við eitthvað slæmt, en það kemur að hluta til vegna þess að við tökum ekki eftir honum þegar hann er meinlaus! Allt efni er að miklu leyti gert úr rafhlöðnum eindum og rafhleðslur (og straumur þeirra) skipta lykilmáli í öllu sem við upplifum.

Þegar við flytjum hljóðmerki úr t.d. útvarpi yfir í hátalara með kapli, gerum við það með rafstraum. En til þess að hann geti flætt um rafrásina þarf hann bæði að geta flætt út í hátalarana og aftur til baka. Það köllum við að loka rafrásinni. Þess vegna þurfum við alltaf tvo rafmagnsvíra (eins og eru á rafmagnsklóm) til að flytja strauminn: einn út og annan til baka.

Ef við rjúfum annan þessara víra getum við opnað og lokað rásinni með því að taka endana í sundur eða láta þá snertast. Við getum líka metið það hvort efni leiða rafstraum eða ekki með því að kanna hvort (og þá hversu mikið) þau leiði rafstraum með því að hlusta eftir því hvort (og þá hversu mikið) hljóðmerkið berst til hátalaranna.

En það kemur á daginn að mörg efni sem við teljum ekki venjulega til leiðara, leiða nú samt rafmagn. Ef þú t.d. snertir endana með höndunum heyrir þú hljóðið í hátölurum. Þú leiðir rafstraum!

Ekki sérlega mikið, en eitthvað þó. Nógu mikið svo magnarinn í hátalarnum geti magnað það upp og spilað. Og þá veist þú að þú hefur fengið straum ... án þess að finna nokkuð fyrir honum.