Flatir speglar

Rimlaspegill

Rimlaspegillinn er þannig úr garði gerður að þegar þú situr andspænis annarri manneskju með rimplaspegilinn á milli sérð þú eingöngu mjóar ræmur af sessunautnum þínum en á milli þeirra sést spegilmynd þín. Þar sem andlit okkar eru almennt séð nokkuð lík í laginu kemur þannig út skemmtileg samblanda andlitanna.

Þegar andlitin eru misstór þarf bar aað hafa það stærra aðeins lengra í burtu.

Rimlaspegillinn sýnir reyndar líka að spegilmyndir eru í raun ekki myndir á yfirborði spegilsins, heldur eru þær þrívíðar myndir með staðsetningu hinum megin við spegilplanið. Við getum því ekki séð mun á spegilmnd og fyrirmyndinni, nema ef spegillinn er með einhverjum göllum eins og ef glerið er rispað.

Speglasamlokur

Flatir speglar varpa ljósi frá frummyndum svo þær líta út fyrir að vera annarsstaðar. Með því að leggja tvo spegla saman með hvasst horn á milli þeirra getur ljósið borist á marga vegu frá hlutnum sem liggja á milli speglanna til augna okkar. Þess vegna birtast okkur margar myndir af hlutunum sem liggja á milli.

Speglasamlokurnar eru tveir flatir speglar (einnig kallaðir planspeglar) sem eru festir saman með hjörum til að gera þetta auðveldara. Með því að breyta horninu á milli speglanna er hægt að búa til ýmsar skemmtilegar myndir úr margföldum spegilmyndum fyrirmyndar sem liggur á milli speglanna.

Kviskjár (e. kaleidoscope) virka einmitt á þennan hátt. Þá er tveimur eða þremur speglum komið komið fyrir í hólki, yfirleitt með 60° horni á milli til að búa til sex spegilmyndir af því sem liggur á milli speglanna. Við enda kviskjárinnar eru svo marglitir, gegnsæir hlutir sem velta lausir á milli tveggja gegnsærra flata og búa til fallegar myndir.