Speglabrunnur

Góður spegill endurkastar svo til öllu ljósi sem á hann fellur til baka. Þannig fæst björt og skýr spegilmynd. Ef spegill gleypti í sig hluta ljóssins (t.d. ef við værum með svartan speglandi flöt) væri spegilmyndin svipuð, bara dekkri. En það eru líka til speglar sem hleypa hluta ljóssins í gegnum sig.

Slíkir speglar kallast hálfspeglar og búa yfir ýmsum skemmtilegum eiginleikum. Einn þeirra getum við séð í speglabrunninum. Í brunninum eru björt ljós en hann stendur í myrkvuðu ljósfræðiherberginu. Neðst í brunninum er venjulegur (al-)spegill en efst liggur hálfspegill.

Helmingurinn af ljósinu sem fellur á hálfspegillinn að innan kemst upp í gegnum hann en hinn hlutinn endurkastast aftur ofan í brunninn. Þar speglast sá helmingur af alspeglinum aftur upp að hálfspeglinum. Svona endurtekur þetta sig koll af kolli og brunnurinn út fyrir að vera óendanlega djúpur.

„Einstefnuspeglar“

Hálfspeglar eru oft taldir vera þess eðlis að þeir hleypi aðeins ljósi aðra leið í gegnum sig, þannig að ef speglinum væri snúið við, þá sæist aðeins í hina áttina. Þetta er þó bara mýta og í rauninni er það ljósmagnið sitt hvoru megin hálfspegilsins sem skiptir máli. Þess vegna sést lítið inn um sólgleraugu sem liggja þétt upp að andlitinu þegar þau eru á nefinu á einhverjum, en sé þeim haldið uppi sést jafn vel í gegnum þau sitt hvoru megin.

Geisladeilar

Hálfspeglar eru notaðir víðar en bara í skyggð gler. Þeir eru einnig gagnlegir í rannsóknartæki líkt og geisladeila. Það eru hálfspeglar sem skipta ljósgeisla upp í tvennt og senda ólíkar leiðir. Dæmi um notkun geisladeilis er við gerð almynda (e. hologram) og í víxlmælum sem nota má til að mæla afar litlar færslur.

Víxlmælar hafa t.a.m. sýnt fram á afstæði hreyfingar og eru notaðir í mælingar á þyngdarbylgjum.