Sumarið komið í Smiðjuna

Síðasti skólahópurinn þetta vorið kom í Vísindasmiðjuna á miðvikudaginn í síðustu viku. Veturinn hefur verið undarlegur en það er bjart framundan og við hlökkum til að fá aftur skólahópa til okkar næsta haust, þá vonandi undir eðlilegri aðstæðum.

Starfsemi vetrar mótaðist eðlilega óhjákvæmilega af faraldrinum. Í haust náðum við að keyra hluta kennarasmiðja okkar og taka á móti nokkrum hópum áður en öllu var læst. Í ljósi þeirrar óvissu um hvenær hægt yrði að opna aftur og þeirrar erfiðu aðstæðna sem kennarar voru settir í, brugðum við á það ráð að bjóða hópum sem bókaða áttu tíma í Vísindasmiðjuna upp á fjarvísindasmiðjur þar sem þau áttu spjall eða unnu verkefni með starfsfólki Vísindasmiðjunnar. Eðlilega voru aðstæður ólíkar og ekki allir hópar sem treystu sér í slíkt, en það var ánægjulegt að geta veitt nemendum í samkomubanninu eilítið uppbrot í daginn.

Upp úr áramótum gátu hópar farið að koma til okkar aftur og svo gott sem bókaðist vorið upp á skammri stundu. Það er gaman að sjá hve mikill áhuginn er á heimsóknunum og aðeins leitt að við skyldum ekki geta tekið á móti fleirum.

Starfsfólk Vísindasmiðjunnar hefur tekið á þessu af stöku æðruleysi og lausnarmiðaðri nálgun, en mörg þeirra eru nemendur við Háskóla Íslands og því sjálf að fóta sig í ströngu námi við strembnar aðstæður. Í vetur buðum við upp á svipaða dagskrá og þann síðasta. Þær Sólrún og Sólveig léku umhverfisspil með gestum og fræddu um áhugaverðar hliðar heimsmarkmiðanna; Brynja, Egill, Eyrún, og Heiðrún buðu upp á vindmyllugerð og afhjúpun á leyndardómum raforkuframleiðslu; Jóhannes Bjarki jós úr viskubrunni sínum, lét krakka skyrpa í skrín og einangraði úr þeim DNA, og Katrín Lilja sýndi skemmtileg efnahvörf eins og henni er einni lagið. Yfir eðlisfræðiuppstillingunum stóðu svo þau Ari, Ágústa, Benedikt, Hilmar, Jóhanna Malen, Katrín Agla, Martin og Þorsteinn Elí. Bak við tjöldin en þétt upp við bakið á starfseminni stóðu svo þær Guðrún, Margrét og Ragna, en í kringum margvíslega starfsemi Vísindasmiðjunnar er í ótal horn að líta.

Við tekur öllu minni starfsemi í sumar en þar munu þeir Ari og Martin sinna viðhaldi, þróun efnis, og undirbúningi fyrir næsta haust þegar við ræsum veturinn á ný með kennarasmiðjum og opnum aftur fyrir móttöku skólahópa. Þetta er búinn að vera viðburðaríkur og eftirminnilegur vetur og viljum við þakka öllum gestum okkar fyrir samveruna. Við vonum að þið skemmtuð ykkur jafn vel og við. Bestu sumarkveðjur!