Árið 2020 hefur svo sannarlega verið undarlegt hjá okkur öllum og COVID-19 heimsfaraldurinn sett sitt mark á starfsemi Vísindasmiðju Háskóla Íslands, en gleðifréttirnar eru þær að þó að hefðbundin starfsemi hafi raskast þá hafa ný tækifæri litið dagsins ljós.
Vísindasmiðjan hefur frá fyrsta degi, í mars 2012, verið nær uppbókuð og hafa færri komist að en vilja. Þangað hafa nú komið um 26 þúsund skólabörn og er smiðjan að öllu jöfnu opin skólahópum af öllu landinu, skólum og börnum að kostnaðarlausu. Hingað til hefur Vísindasmiðjan verið að taka árlega á móti um 6.000 grunnskólanemum + um 250 kennurum. En árið 2020 varð öðruvísi ár.
Uppúr miðjum mars urðum við að loka fyrir heimsóknir sökum samkomutakmarkana, en starfsfólk Vísindasmiðjunnar sat ekki auðum höndum það vor og sumar, heldur nýtti tækifærið til að takast á við þau verkefni sem höfðu fengið að sitja örlítið á hakanum, s.s. viðhald og endurbætur á aðstöðu og aðbúnaði hjá okkur; gamall peningaskápur og vaskaðstaða fjarlægð til að stækka rými til smiðjuhalda, veggir málaðir, gólf pússuð, ný húsgögn, langþráðu starfsmannaherbergi komið á laggirnar o.s.frv.
Í haust opnaði svo Vísindasmiðjan aftur, spennt að taka á móti skólahópum og var orðið fullbókað fyrir haustið og fram á vor 2021. Okkur tókst að halda opnu um tíma, héldum kennararsmiðjur og skólahópar tóku að streyma inn, en því miður urðum við svo að loka aftur í byrjun október sökum næstu COVID-19 bylgju.
Aftur sátum við nú ekki aðgerðarlaus og tekið var á það ráð að bjóða þeim hópum sem frá þurftu að hverfa upp á svokallaðar "fjarsmiðjur" í gegnum Zoom (fjarfundaforrit) og voru fjórar ólíkar smiðjur aðlagaðar þessu formi: stjörnufræði með Martin, heimsmarkmiðin með Sólrúnu, efnafræði með Kötu og DNA einangrun með Jóa.
Að sjálfsögðu koma fjarsmiðjur aldrei í stað heimsóknar þar sem krakkarnir fá að upplifa, reyna og prófa á staðnum, en þær hafa reynst kærkomin viðbót og gott uppbrot á þessum undarlegu tímum.
Auk þróun fjarsmiðja hefur starfsfólkið einbeitt sér að gerð rafræns efnis fyrir vefsíðuna okkar. Þessar rafrænu leiðir eru hugsaðar sem nokkurs konar uppbót fyrir þá sem þurftu frá að hverfa, en einnig sjáum við nú aukin tækifæri í þvi að ná til breiðari hóps grunnskóla um allt land; sér í lagi þeirra hópa sem ekki sjá sér fært að koma í heimsókn til okkar sökum fjarlægðar.
Vísindasmiðjan hefur haldið áfram þátttöku í ýmsum samstarfsverkefnum, hérlendis sem og erlendis, s.s. við Nýsköpunarmiðstöð Íslands um nýsköpunarkeppnina MeMa (Menntamaskínan), First Lego League keppnina, þróun smiðja fyrir Sjóminjasafnið, tekur þátt í verkefninu LÁN (Listrænt ákall til náttúrunnar), SciStage og margt fleira.
Lögð er áhersla á að tvinna Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna inn í starfsemi og verkefni Vísindasmiðjunnar og hafa loftslags- og umhverfismál fengið sérstakan sess, eins og sjá má m.a. í ofangreindum verkefnum.
Við hlökkum til að geta tekið aftur á móti skólahópum, vonandi sem fyrst og stefnum jafnframt á að þróa fjarsmiðjurnar og rafrænt efni enn frekar.
Einnig hlökkum við til, þegar þar að kemur, að geta tekið aftur á móti gestum á öllum aldri á opnum viðburðum í menningar- og menntastofnunum og almannarýmum.
Og síðast en ekki síst hlökkum við til þegar Háskólalestin getur aftur farið af stað, en þá breytist Vísindasmiðjan í farandsmiðju og ferðast um land. Í ferðum lestarinnar býðst landsmönnum í dreifðum byggðum að kynnast vísindum með aðgengilegum hætti og jafnast þannig tækifæri og aðgangur landsmanna að þekkingu og fræðum. Starfsmenn Vísindasmiðjunnar eru kennarar og nemendur HÍ og fá háskólanemar sem þar starfa einstaka þjálfun í vísindamiðlun meðfram sínu námi.
Kærar jólakveðjur,
starfsfólk Vísindasmiðjunnar