Háskóli Íslands

Um Vísindasmiðjuna

VísindasmiðjanVísindasmiðja Háskóla Íslands var opnuð vorið 2012 í Háskólabíói og hefur verið nánast fullbókað frá fyrsta degi. 
Markmið smiðjunnar er að efla áhuga ungmenna á vísindum og fræðum með gagnvirkum og lifandi hætti og styðja þannig við kennslu á sviði náttúru- og raunvísinda. Heimsóknir í Vísindasmiðjuna eru grunnskólum að kostnaðarlausu og hafa viðbrögð skóla og umsagnir verið með eindæmum góð. Starfsmenn og leiðbeinendur í smiðjunni eru kennarar og nemendur Háskóla Íslands.

Staðsetning og heimsóknir
Vísindasmiðjan er staðsett í vesturenda Háskólabíós við innganginn sem snýr að Hagatorgi. Opið er fjóra daga vikunnar: þriðjudaga, miðvikudaga, fimmtudaga og föstudaga. Í maí er þó ekki opið fimmtudaga og föstudaga.
Skráning heimsókna fer frá hér á síðunni.

Aldurshópar og dagskrá
Grunnskólanemendur af öllu landinu eru velkomnir í Vísindasmiðjuna. Heimsóknin nýtist best fyrir 5. - 10. bekk grunnskóla. Einnig er boðið upp á sérstaka dagskrá fyrir framhaldsskóla. Mögulegt er að taka við hópum upp að 26 nemendum. 

Skólum að kostnaðarlausu
Enginn aðgangseyrir er í Vísindasmiðjuna og er þjónustan skólum landsins að kosnaðarlausu.

Aðstaða og samgöngur
Í Vísindasmiðjunni er góð aðstaða fyrir skólahópa; rúmgott svæði fyrir yfirhafnir og töskur, notalegt athvarf til að borða nesti og gott aðgengi. Margir strætisvagnar nema staðar á háskólasvæðinu; við Hringbraut, Suðurgötu, Hagatorg og víðar.

Rafheimar lögðu grunninn
Vísindasmiðjan er að hluta grundvölluð á veglegri gjöf frá Orkuveitu Reykjavíkur, sem afhenti Háskóla Íslands allan þann búnað og tæki sem áður tilheyrðu Rafheimum í Elliðaárdal og notaður var til fræðslu skólabarna. Háskólinn tók við gjöf Orkuveitunnar með fyrirheit um að búnaður og tæki yrði notað áfram til fræðslu ungmenna og yrðu hvati að fjölbreyttum og lifandi kennsluaðferðum.

Vísindamiðlun Háskóla Íslands til ungs fólks
Háskóli Íslands leggur áherslu á að glæða áhuga ungs fólks á vísindum og fræðum og hefur staðið fyrir margs konar verkefnum í þeim tilgangi. Má þar nefna Háskóla unga fólksins, Vísindavefinn og Háskólalestina.

Háskólinn og samfélagið
Vísindasmiðja Háskóla Íslands er í góðu samstarfi við Raunvísindastofnun HÍ, Samtök Iðnaðarins, Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur um að efla áhuga ungs fólks á vísindum og fræðum. 

 
Samtök Iðnaðarins  

 

 

 

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is