Háskóli Íslands

Verkefni

Orsök dags og nætur og árstíða

Lýsing: Í hvaða átt snýst Jörðin, séð frá norðurhveli Jarðar? Okkur er stundum sagt að Jörðin snústi réttsælis, eins og klukka, þar sem sólin rísi í austri og setjist í vestri. Okkur er líka stundum sagt að árstíðir séu af völdum breytilegrar fjarlægðar Jarðar frá sólu. En er það satt? Í þessu verkefni skoðum við þessar spurningar og reynum að finna leiðir til að komast að því hvort þessar staðhæfingar séu réttar eða rangar.

Efni: Hnattlíkan (t.d Jarðarboltinn) og Stellarium hugbúnaðurinn (http://www.stellarium.org)

Aldur: Frá 6 ára og upp úr. Verkefnið virkar líka vel fyrir fullorðna. 

Tímalengd: 30-40 mínútur

Verklýsing

1) Byrjaðu á að sýna mynd af hálfri eða sigðarlaga Jörð utan úr geimnum. Spurðu nemendurnar hvers vegna Jörðin er ekki að fullu upplýst. Þú færð líklega ýmis konar svör, til dæmis að tunglið skyggi á hana. Notaðu lampa eða annan ljósgjafa til að einfalda enn frekar og sýna að á öllum stundum er helmingur Jarðar baðaður sólarljósi vegna þess að Jörðin er hnöttur. Á annarri hliðinni er nótt en á hinni dagur. 

Jarðarupprás: http://www.nasa.gov/multimedia/imagegallery/image_feature_102.html 

Sigðarlaga Jörð séð frá Rosetta geimfarinu: http://www.esa.int/Our_Activities/Operations/First_view_of_Earth_as_Rosetta_approaches_home

2) Jörðin snýst um sjálfa sig. Spurðu nemendur hve lengi Jörðin er að snúast einu sinni um sjálfa sig. (Svörin gætu komið þér á óvart).

3) Spurðu hvers vegna Jörðin snýst (réttsælis eða rangsælis séð frá norðurhveli Jarðar). Svörin verða ýmiskonar.

4) Spurðu hvort þau (nemendurnir) geti sjálfir fundið út hvernig Jörðin snýst án þess að Gúggla svarið eða fara út í geiminn. Getum við notað eitthvað sem við sjáum á daginn (sólina).

5) Opnaðu Stellarium hugbúnaðinn og sýndu færslu sólar yfir himininn með því að færa klukkustundavísinn fram. Rís sólin alltaf í austri og sest alltaf í vestri? Nei! Það veltur á árstímanum. Einu tvö skiptin á árinu sem sólin rís í austri og sest í vestri er við jafndægur.

6) Við sjáum að sólin virðist alltaf rísa nokkurn veginn í austri á hverjum degi vegna þess að Jörðin snýst rangsælis. Reyndu að útskýra þetta betur. Finndu Ísland og settu lítinn LEGO eða Playmobile kall á boltann. Notaðu ljósgjafa sem sólina og sýndu að ef Jörðin snerist réttsælis virtist sólin rísa í vestri. Sú staðreynd að sólin rís nokkurn veginn alltaf í austri staðfestir að Jörðin snýst rangsælis.

7) Snúðu hnattlíkaninu án þess að halla því og spurðu hvað sé athugavert við þennan snúning. Vonandi svarar einhver að hnattlíkanið hallar ekkert. Spurðu hve mikið Jörðin hallar (23,4°).

8) Spurðu hvað við upplifum ár hvert vegna hallans (svar: árstíðir).

9) Spurðu hvernig í veröldinni möndulhalli Jarðar geti valdið árstíðum (Jörðin er næst sólu í janúar en fjærst henni í júlí).

10) Notaðu ljósgjafa eða nemanda og sýndu (eða öllu heldur, láttu nemendurna finna út) að hallinn helst alltaf eins, þ.e.a.s. norðurskautið bendir alltaf í sömu áttina (að Pólstjörnunni í dag). Þetta veldur því að norðurhvelið hallar stundum að sólinni og stundum frá henni. Öfugt á suðurhvelinu svo á Jörðinni eru alltaf tvær árstíðir á öllum stundum (vetur/sumar, haust/vor, sumar/vetur, vor/haust).

11) Spurðu hvað gerist þegar hvorugt hvelið hallar að sólinni (svar: jafndægur).

12) Nýttu tækifærið og skoðaðu aðrar reikistjörnur. Hafa allar reikistjörnur árstíðir (nei!)? Hvar eru árstíðirnar öfgakenndastar (Úranusi)? Nánar hér.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is