UT - messan 2021

Háskóli Íslands er einn af samstarfsaðilum UTmessunnar sem hefur verið meðal stærstu viðburða ársins í tölvugeiranum síðastliðin tíu ár. Skólinn hefur boðið gestum upp á fjölbreytta dagskrá þar sem vísindin og tæknin eru í sviðsljósinu en undanfarin ár hefur þessi mikla hátíð farið fram í Hörpu.

Í ljósi samkomutakmarkana var viðburðurinn í ár færður yfir á netið og laugardaginn 6. febrúar var Háskóli Íslands með beina útsendingu þar sem gestir gátu skyggnst á bak við tjöldin hjá vísindafólki og nemendum Háskóla Íslands og tengdum aðilum. Sagt var frá fjölbreyttum rannsóknum sem unnið er að í háskólanum og  ýmis rannsóknartól og -tæki sýnd. Í dagskránni voru svo skemmtileg innslög frá Vísindasmiðjunni þar sem vísindamiðlararnir Ari, Kristbjörg og Martin tóku á móti gestum, sögðu frá starfseminni og nokkrar skemmtilegar uppstillingar og tilraunir sýndar.