Viðhald á veirutímum

Vísindasmiðjan lokaði dyrum fyrir gestum þegar samkomubann var sett á í tengslum við Covid-19 faraldurinn. Starfsfólkið situr þó ekki auðum höndum enda mörg verkefni sem sitja venjulega á hakanum.

Nokkur viðhaldsverkefni voru því drifin í gang og þeirra á meðal brotvinna sem annars var á dagskrá í sumar en til stóð að fjarlægja gamlan peningaskáp sem stendur á miðju gólfi í austurálmu Vísindasmiðjunnar. Það er stórt verk og nokkurt rask af, og hentar því nokkuð vel nú þegar lítið annað er í gangi.

Með auknu rými hlökkum við til að geta boðið gestum upp á fleiri og fjölbreyttari verkefni, og bæta aðbúnað í kennarasmiðjum sem eru orðnar reglubundnar í starfi Vísindasmiðjunnar.