Nýlega skrifuðu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Einar Þorsteinsson borgarstjóri undir viljayfirlýsingu þess efnis að móta í sameiningu framtíðarsýn fyrir Vísindaheima í Háskólabíói, sem yrði fullburða vísindasetur opið almenningi.
Byggt verður á góðri reynslu af Vísindasmiðju Háskóla Íslands, sem hefur tekið á móti um 36 þúsund grunnskólanemum, auk hópa framhaldsskólanema og leikskólabarna frá því hún var opnuð í Háskólabíói í mars 2012. „Reynsla síðustu 12 ára hefur sýnt að mikil þörf og áhugi er fyrir gagnvirku, lifandi vísindasetri,“ segir í viljayfirlýsingunni.
„Mér finnst afar mikilvægt að efla aðstöðu fyrir börn og fjölskyldur þeirra þar sem hægt er að fræðast um undraheima vísindanna og njóta samveru. Erlendis sjáum við víða afar glæsileg vísindasöfn sem þjóna bæði almenningi og skólum borganna. Við settum okkur það markmið í upphafi kjörtímabilsins að stjórna borginni útfrá hagsmunum barna – og það að búa til framtíðarsýn fyrir vísindasetur er klárlega í þeim anda,“ segir Einar Þorsteinsson borgarstjóri.
Sjá nánar á vef Háskóla Íslands