Kennaradagar og vinnusmiðjur á Íslandi

Í síðustu viku var mikið um að vera hjá starfsfólki Vísindasmiðjunnar, en þá fóru kennaradagar og vinnusmiðjur á vegum verkefnisins „BaltNord network for science communication.“ Samstarfsaðilar frá Daugvapils University, Lettlandi; AHHAA, Eistlandi; Siauliai University, Litháen; og Háskóla Íslands komu saman í fjóra daga á Íslandi, en áður hafa þeir hist í Eistlandi og Litháen. Markmið verkefnisins er að auka fjölbreytni og þróa áfram vísindasmiðlun í Eystrarsaltsríkjum og á Norðurlöndum með því að þátttakendur deila góðum ráðum og jákvæðum reynslusögum.

Á mánudag var haldinn kennaradagur í Vísindasmiðju Háskóla Íslands. Um þrjátíu grunnskólakennarar fengu boð um að sækja kennaradaga og kynnast því nánar hvernig starfsfólk Vísindasmiðjunnar tekur á móti grunnskólahópum og fjallar um sínar sérgreinar. Um morguninn var efnafræði, jarðfræði og eðlisfræði; og eftir hádegi var stjörnufræði og ljósakassinn kynntur.

Á þriðjudag var einnig kennaradagur, en þá bættust við erlendu gestirnir. Grunnskólakennararnir fengu nú að læra af vísindamiðlurum frá Eystrarsaltsríkjunum og prófa ýmsar tilraunir; til dæmis í náttúru- og umhverfisfræði og efnafræði. Þessar vinnusmiðjur reyndust ekki síður lærdómsríkar fyrir starfsfólk Vísindasmiðjunnar og hina samstarfsaðilana, sem fengu innblástur og margar nýjar hugmyndir. Um kvöldið var farið í jarðfræði- og stjörnuskoðunarferð sem Snæbjörn, jarðfræðikennari og Sævar Helgi, stjörnufræðikennari leiddu. Stoppað var á Þingvöllum og við Urriðafoss þar sem jarðfræði var skoðuð, og loks var endað á Hótel Rangá þar sem fyrirtaks aðstaða er til stjörnuskoðunar.

Á miðvikudag og fimmtudag héldu samstarfsaðilar svo áfram að deila þekkingu sín á milli í vísindamiðlun. Rætt var um fjölmiðlatengsl, gerð sjónvarpsþáttanna Með fróðleik í fararnesti og Tímarits Háskóla Íslands og skipsts var á hugmyndum um vísindamiðlun til yngstu kynslóðarinnar. Fjölmargar hugmyndir spruttu á þessum dögum og mun þetta samstarfs sannarlega nýtast starfsfólki Vísindasmiðjunnar.