Litróf ljóssins

Oft sést til regnboga þegar nýlega hefur stytt upp. Sólarljósið sem loksins brýst í gegnum skýin lendir á smáum vatnsdropum, litir ljóssins brotna og endurkastast til okkar. Ljósgeislarnir brotna mismikið eftir því hver liturinn er – blár brotnar meir en rauður – og því dreifist ljósgeislinn eftir litum sem kallast tvístrun.

Þennan eiginleika gegnsærra efna er notaður til að greiða úr litum ljóssins. Prismur virka á þennan hátt og voru lengi notaðar til þess að litrófsgreina ljós. Nú eru notaðar svokallaðar ljósgreiður sem virka á annan máta, en með svipuðum áhrifum þannig að þegar ljósi er varpað í gegnum það dreifast úr litum ljóssins.

Þegar sólarljósið er skoðað í gegnum litrófssjárnar sést samfellt litróf. Ef þú skoðar flúrperur í gegnum litrófssjár sjást hins vegar stakar litrófslínur með dökkum eyðum þar á milli.

Sólin skín vegna þess að sýnilega yfirborð hennar er tæplega sex þúsund gráður (5 500 °C). Líkt og allir nægilega heitir hlutir geislar hún samfelldu litrófi (regnboga). Reyndar er litróf sólarinnar ekki alveg án eyða. Þær eru hins vegar mjóar og sjást aðeins í afar góðum litrófssjám. Eyðurnar eru til komnar vegna þess að gös í andrúmslofti Sólarinnar gleypa í sig ljós af ákveðnum tíðnum. Það má þannig nota eyðurnar til þess að efnagreina andrúmsloft sólarinnar úr fjarlægð.

Litróf flúrpera er til komið vegna öfugs eiginleika: Þegar gasið í flúrperunni örvast gefur það frá sér ljós af tíðnum sem ákvarðast af kvikasilfursgasinu innan í flúrperunni. Stór hluti ljóssins er reyndar útfjólublátt og okkur því ósýnilegt. Hvíta himnan innan á flúrperunum gleypir í sig útfjólubláa ljósið og breytir því í sýnilegt ljós sem er það sem við sjáum. Þessi umbreyting úr orkuríku ljósi í orkuminna ljós (hér úr útfjólubláu í sýnilegt) kallast flúrljómun og þaðan draga perurnar nafn sitt. Ljómun himnunnar sem yfirleitt er úr blöndu málm- og fosfórsalta gefur frá sér litrófslínur og þær má því sjá í litrófssjá þegar henni er beint að flúrperu.

Með réttu vali á gasi og flúrljómandi húð má hanna peru sem gefur frá sér hvítleita blöndu ljóss sem gefur aðallega frá sér sýnilegt ljós. Gömlu glóðþráðarperurnar lýstu (eins og sólin) vegna þess að glóðþráðurinn hitnaði en þá fór stór hluti raforkunnar í að mynda innrautt ljós sem nýtist okkur sama og ekki neitt. Þetta er ein ástæða þess að flúrperur eru umtalsvert sparneytnari en glóðþráðarperur. Þessi munur er ástæða þess að Evrópusambandið ákvað að banna sölu glóðþráðaperu í Evrópu.

Ítarefni

Spurningar af Vísindavefnum