Opið hús í Vísindasmiðjunni 9. apríl

Laugardaginn 9. apríl verður stór vísindasýning í Háskólabíói og af því tilefni verður opið hús í Vísindasmiðju Háskóla Íslands. Tilefnið er að árleg ráðstefna samtakanna EuroScienceFun (ESF) er haldin hér á landi dagana 5. - 9. apríl. Sprengjugengi Háskóla Íslands er gestgjafinn að þessu sinni og heldur ráðstefnuna í samstarfi við Menntamálaráðuneyti og Háskóla Íslands.

Ráðstefnan stendur yfir í fimm daga og á lokadegi hennar halda allir þátttakendur sameiginlega vísindasýningu sem er opin almenningi. Þann 9. apríl munu tuttugu sýningarteymi koma saman í Háskólabíói og sýna stórskemmtilegar tilraunir sem henta öllum aldri. Þátttakendur kom víðs vegar að og eru með mjög ólíkan bakgrunn. Á meðal þátttakenda verða nemendur, kennarar á öllum skólastigum, prófessorar, leikarar, starfsfólk háskóla, vísindastofnana og vísindasafna. Vísindasýningin stendur yfir frá klukkan 12:00 - 17:00 laugardaginn 9. apríl. Í anddyri Háskólabíós sem snýr að Hagatorgi verða þátttakendur með allskonar skemmtilegar tilraunir og þá mun starfsfólk Vísindasmiðjunnar taka vel á móti gestum. Í stóra sal Háskólabíós verða tvær ólíkar sýningar og verður Ævar vísindamaður kynnir. Sýningarnar verða klukkan 13:00 og 15:00. 

Við hvetjum alla áhugasama til að mæta, enda stórskemmtileg dagskrá í boði fyrir unga sem aldna. Allir eru velkomnir og verður aðgangur ókeypis.