Foucault pendúll

Það er eitt lögmála náttúrunnar að hlutir leitast við að halda hraða sínum. Þegar hringborðinu með líkaninu af Foucault pendúlnum er snúið, snýst upphengja pendúlsins vissulega og það veldur krafti á pendúlinn. Sá kraftur snýr þó bara sjálfum pendúlkólfinum, ekki sveiflustefnunni. Þessi uppstilling Frakkans Léon Foucault var fyrsta mælingin sem sýndi fram á að það er sannarlega Jörðin sem snýst um öxul sinn, en ekki himinhvolfið umhverfis okkur.

Snúist hringborðið nægilega hægt taka mannverurnar ekki eftir því að heimurinn sem þær búa á sé snúast. Þeim mun því þykja sem sveiflustefna pendúlsins sé í raun að snúast. Ef langur pendúll er hengdur upp og útbúinn þannig að hann sveiflist lengur en hálftíma eða svo, sýnist okkur sveiflustefna hans snúast réttsælis. Þetta er þó vegna snúnings Jarðar sem veldur því að á Íslandi snýst sveiflstefnan um 12° á klukkutíma (en væri 15° á pólunum, sama og sólin virðist færast okkur séð frá).

Snúningur Jarðar

Við lærum það snemma að Jörðin er hnöttur sem snýst um sjálfan sig og Sólina. Þessi snúningur Jarðarinnar veldur því sem við köllum dag og nótt eftir því sem jörðin snýr frá eða að Sólu.

Frá sjónarhóli okkar á yfirborði Jarðar gæti það hins vegar allt eins verið að við séum kyrr og Sólin, rétt eins og aðrir hnettir himinhvelfingarinnar, snúist umhverfis okkur. Eftir nákvæmar mælingar Danans Tycho Brahe og útleiðingar þjóðverjans Johannesar Keplers í árdaga vísindabyltingarinnar (í kringum aldamótin 1600) sannfærðust æ fleiri um að það væri enn ótrúlegra að Jörðin stæði kyrr og óhögguð í miðju sólkerfisins. Það var hins vegar ekki fyrr en árið 1850 sem það fékst bein sönnun á snúningi Jarðar.

Pendúll Foucaults

Dag einn var vísindamaðurinn Léon Foucault við vinnu í kjallara sínum þegar hann tók eftir því að fjöður (grönn málmstöng) í rennibekk sínum sveiflaðist ætíð í ákveðnum fleti, þrátt fyrir að fjöðurin snérist í rennibekknum. Þegar hann plokkaði fjöðurina lóðrétt sveiflaðist hún alltaf lóðrétt, þrátt fyrir að fjöðurin sjálf snérist um láréttan snúningsásinn. Foucault áttaði sig á því að þetta mætti nota til þess að mæla það hvort maður væri að snúast eða ekki.

Hann setti upp pendúl í kjallaranum til þess að sjá hvort honum tækist að greina snúning Jarðar og viti menn, það tókst. En til þess að sjá snúninginn greinilegar þurfti hann að láta pendúlinn sveiflast í langan tíma. Til þess þurfti hann að vera þungur (svo hann hefði mikla hreyfiorku), og langur (svo hann sveiflaðist hægar til að minnka loftmótstöðuna).

Árið 1851 sýndi hann svo alþjóð einfalda sönnun á snúningi Jarðar með pendúl sem vóg 28 kg og var 67 metrar á lengd í Pantheon hofinu í París.

Foucault pendúll á Íslandi

Foucault pendúlar eru algengir á vísindasöfnum þar sem nægjanlega hátt er til lofts. Í Vísindasmiðjunni er þó bara lítil eftirlíking til þess að sýna hvernig pendúlar viðhalda sveifluplani sínu þrátt fyrir að upphengjan, og nærheimurinn sem þeir búa í, snúist.

Í húsi Orkuveitunnar er hins vegar eini Foucault pendúll landsins. Sá var reistur af Ara Ólafssyni, eðlisfræðingi, í samvinnu við myndlistamanninn Hrein Friðfinnsson árið 2003. Pendúllinn er 25 m hár og fellir pinna til að skrá snúning á sveifluplaninu. Við pinnana er vafin spóla sem rafstraumi er hleypt á þegar pendúlkólfurinn er nálægt, svo segulsviðið sem rafstraumurinn veldur ýtir á segul sem staðsettur er undir kólfinum. Það er nógu mikill kraftur til að viðhalda sveiflunni.

Pendúllinn sveiflast því fram og til baka án þess að mannshöndin þurfi að koma nokkuð að, nema þegar hitaþensla byggingarinnar veldur því að pendúllinn stendur of hátt eða of lágt miðað við gólfið.