Vísindasmiðjan í Hörpu á Menningarnótt

Á Menningarnótt opnar Vísindasmiðja Háskóla Íslands farandsmiðju í Hörpu, miðstöð menningar og mannlífs. Á komandi mánuðum verður farandsmiðjan fastur liður í nýrri Barnamenningardagskrá Hörpu og stendur hún gestum á öllum aldri til boða þeim að kostnaðarlausu.

Farandssmiðja Vísindasmiðjunnar mun verða með viðburði í Hörpu dagana:

  • 21. september 2019
  • 19. október 2019
  • 25. janúar 2020
  • 22. febrúar 2020
  • 21. mars 2020

Í Vísindasmiðjunni geta gestir á öllum aldri upplifað undraverða eiginleika ljóss, lita og hljóða með tilraunum, leik og óvæntum uppgötvunum. Með lifandi og gagnvirkum vísindum er einnig í boði að teikna listaverk með rólu, leika á syngjandi skál, kynnast furðulegum efnasamböndum með Sprengju-Kötu og kanna sjálfan himingeiminn með Stjörnu-Sævari. Í boði verða tilraunir, þrautir, tæki og tól, leikir og spennandi vinnusmiðjur fyrir alla aldurshópa;

  • viltu búa til þitt eigið vasaljós í lóðunarsmiðju?
  • spreyta þig á vindmyllurgerð og orkunotkun?
  • eða kynnast óvenjulegri hljóðfæragerð?

Allt þetta og meira til geta gestir spreytt sig á í farandsmiðjunni.

Í Vísindasmiðjunni er leitast við að gera hið ósýnilega sýnilegt og hljóð berast úr óvæntum áttum. Vísindasmiðjan mun einnig taka þátt í ævintýralegum könnunarleiðangri um Hörpu, þar sem tækni og vísindi leika stórt hlutverk, enda býr listin í vísindunum og vísindin í listinni og verða þau sjaldan aðskilin.

Farandsmiðja Vísindasmiðjunnar í Hörpu er styrkt af Barnamenningarsjóði Íslands.

Staðsetning: Flói og Ríma - fyrir framan Kaldalón
Allir velkomnir – ÓKEYPIS FYRIR ALLA FJÖLSKYLDUNA