Vísindasmiðjan í Hörpu - vinnusmiðjur

Vísindasmiðjan var nú um helgina að öðru sinni í vetur með viðburð í Hörpu. Í þetta sinn bauð Vísindasmiðjan upp á vinnusmiðjur fyrir alla fjölskylduna þar sem áherslan var m.a. á að tengja saman vísindi og listir með margvíslegum hætti.

Í boði voru spennandi vinnusmiðjur fyrir alla aldurshópa;

  • Viltu upplifa hagnýting ljóss t.a.m. til mælingar á breidd hárs?
  • Viltu búa til þitt eigið vasaljós í lóðunarsmiðju?
  • Spreyta þig á vindmyllugerð og orkunotkun?
  • Forrita þína eigin tónlist í Scratch og Sonic Pi?

Hver smiðja stóð í um 20 - 40 mínútur og nóg annað hægt að uppgötva, skoða og gera meðan beðið var eftir lausu plássi.

Á sama tíma bauð Harpa upp á Skoðunarferðir um leynistaði Hörpu fyrir forvitna krakka og tónleikaröðin Reikistjörnur var með tónleika með tónlistarkonunni GDRN. Svo ýmislegt var í boði fyrir alla fjölskylduna. 

Alls verða viðburðir Vísindasmiðjunnar í Hörpu sex í vetur. Sá næsti er 19. október en síðari þrír verða í lok janúar, febrúar og mars.

Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði Íslands og er hluti af fjölskyldudagskrá Hörpu veturinn 2019-2020.