Jói og DNA-ið

Jóhannes Bjarki Urbancic, einn af leiðbeinendum Vísindasmiðjunnar, hefur haldið skemmtilegar DNA-smiðjur í vetur. Jói lét ekki samkomubann á sig fá, skellti sinni smiðju yfir í fjarsmiðju og útbjó verkefni og leiðbeiningar sem nú má finna á hér á verkefnasíðunni okkar. Ef þig langar að sjá þitt eigið DNA er þetta smiðja fyrir þig!

Jói nær góðu spjalli við nemendur, veltir fyrir sér lífinu sjálfu (í bókstaflegri merkingu) og á það til að segja skemmtilegar sögur af ferðum sínum á Svalbarða, þar sem hann stundaði annsóknir á vistfræði plantna á norðurslóðum. Það þarf nefnilega að fara mjög varlega í nágrenni við ísbirni og hafa með sér hvellhettur, riffla og neyðarblys í svona rannsóknarleiðangra.

Jói er menntaður líffræðingur frá Háskóla Íslands og stundar meistaranám í líffræði. Auk þess að stunda rannsóknir við Háskóla Íslands, kennir hann þar grasafræði og hefur verið í hlutastarfi í Fjölskyldu- og Húsdýragarðinum.

Jói er í stjórn Landverndar og er fulltrúi Landverndar í stjórn Kolviðar. Hann hefur áhuga á vistfræði og líffræðilegum fjölbreytileika.