Vorið 2017 voru haldnir svokallaðir Kennaradagar í Vísindasmiðju Háskóla Íslands. Um þrjátíu grunnskólakennarar fengu boð um að sækja kennaradaga og kynnast því nánar hvernig starfsfólk Vísindasmiðjunnar tekur á móti grunnskólahópum og fjallar um sínar sérgreinar. Um morguninn kynntist hópurinn dagskránni í efnafræði, jarðfræði og eðlisfræði; og eftir hádegi var stjörnufræðin kynnt og Ljósakassi Vísindasmiðjunnar.
Á þriðjudag var einnig kennaradagur, en þá bættust við erlendir gestir úr norræna samstarfsverkefninu BaltNord. Grunnskólakennararnir fengu nú að læra af vísindamiðlurum frá Eystrarsaltsríkjunum og prófa ýmsar tilraunir; til dæmis í náttúru- og umhverfisfræði og efnafræði. Þessar vinnusmiðjur reyndust ekki síður lærdómsríkar fyrir starfsfólk Vísindasmiðjunnar og norrænu samstarfsaðilana sem fengu innblástur og margar nýjar hugmyndir. Um kvöldið var farið í jarðfræði- og stjörnuskoðunarferð sem Snæbjörn, jarðfræðikennari og Sævar Helgi, stjörnufræðikennari leiddu. Stoppað var á Þingvöllum og við Urriðafoss þar sem jarðfræði staðarins var skoðuð, og loks var endað á Hótel Rangá þar sem fyrirtaks aðstaða er til stjörnuskoðunar.