Sphero Sprk+ er lítill þjarkur sem ekur um inni í kúluskel. Honum má stýra með fjarstýringu eða með því að skrifa forrit og senda það yfir á þjarkinn.
Á síðustu árum hafa komið fram margar gerðir þjarka sem henta vel til forritunarkennslu. Hver þeirra hefur ákveðna kosti og galla. Sphero er smár, kvikur og með afar skemmtilega hönnun þar sem þjarkurinn sjálfur ekur um í kúluskelinni eins og hamstur.
Hleðsla og tenging
Á kúluskelinni eru engin göt svo Sphero-inn flýtur(!) en því þarf að hlaða og senda forrit yfir í þjarkinn þráðlaust. Með þjarkinum kemur hleðsluvagga en þar sem þráðlaus hleðsla er öllu hægari en beintengd tekur það um þrjá tíma að hlaða Sphero-inn. Á fullri hleðslu dugir þarkurinn í um klukkutíma. Það er því mikilvægt að hafa þjarkana fullhlaðna þegar kennslustundin/smiðjan hefst, nema það séu til fleiri til skiptana.
Sphero þjarkinn þarf svo að tengja við spjaltölvu. Þegar búið er að ræsa Sphero Edu forritið á það að leita að nálægasta þjarkinum og tengja sig við hann.
Sphero forritaður
Sphero er forritaður í gegnum Sphero Edu forritið sem er fáanlegt fyrir Android, iOS, Fire OS og Chrome OS.
Á Sphero Edu vefnum eru mörg verkefni. Einföld dæmi:
- Verkefni
- Aka í ferning.
- Aka á milli herbergja.
- Aka eftir völundarhúsi.
- Hringa baujur til að sækja sér stig.
- Smíða vagna.
- Teikna mynstur.
Grunnatriði forritunar
Hvert forritunarmál hefur sinn orðaforða og málfræði, en þó innihalda þau nokkuð lík verkfæri sem flest falla í flokka sem nefna mætti REST: Röðun - Endurtekning - Skilyrði - Tvítekning (e. abstraction).
Tenging við hefðbundið námsefni
Stundataflan er bara endanlega stór og fátt sem bendir til að nemendur græði á því að vera daglangt í formlegu skólastarfi svo við þurfum að nýta þann tíma vel sem við höfum með nemendum. Samþætting námsgreina býður upp á góða nýtni en það er ekki alltaf ljóst hvernig við samþættum það sem á yfirborðinu eru mjög ólíkar námsgreinar.
Stærðfræði er líklega sú grein sem auðveldast er að samþætta við forritunarkennslu með Sphero. Hvað með aðrar eins og tónfræði, eðlisfræði, líffræði, smíði og dönsku, ... ?