Microbit tækjaforritun

Micro:bit tölvurnar henta vel til forritunarkennslu og mikið til af kennsluefni. KrakkaRÚV-vefurinn kodinn.is inniheldur mikið af gagnlegu efni en í þessari vinnusmiðju verður farið skrefinu lengra og microbit tölvur tengdar við tæki eins og mótora og skynjara.

Markmiðið er að þátttakendur fái þekkingu og reynslu til að nýta tækjaforritun í eigin starfi. Farið verður yfir Microsoft MakeCode ritilinn og þann tækjabúnað sem þarf umfram micro:bit tölvurnar. Lunginn af vinnusmiðjunni er þó verklegur þar sem þátttakendur setja saman tæki sem stýrt er af micro:bit tölvu.

Ekki er þörf á að koma með neinn búnað í vinnusmiðjuna, en við ráðleggjum þátttakendum að mæta með þann tækjabúnað sem þau munu styðjast við í kennslu ef það er í boði.

Búnaðurinn

Eitt markmiða smiðjunnar er að kennarar geti útfært hana á eigin starfsstöð. Það er ágætt að ganga út frá því að vera með:

  • Micro:bit tölvu fyrir hverja 2-3 nemendur (12 fyrir 24-manna hóp)
  • Micro-USB kapal (sem flytur gögn; ágætt að hann sé sæmilega langur til að ná úr tölvu í tækið).
  • Ljóstvista í nokkrum litum (LED perur; 5 mm er ágæt stærð; þær nýtast í ýmislegt og hægt að fá nokkuð ódýrt í magni, t.d. 100 stk./lit)
  • Servo mótora (1-3 per hóp, 24 fyrir 12 hópa).
  • Krókódílaklemmur fyrir einföld verkefni og byrjunarfikt (5 per hóp í mismunandi litum eða 40 stk fyrir 24 manna hóp)
  • Tengivíra fyrir flóknari verkefni (80 stk fyrir 12 manna hóp, af hverri þriggja gerða)
  • Víra með krókódílaklemmu á öðrum enda og tengivírstengi á hinum (3 per servo, 70 fyrir 24)
  • Tengirauf fyrir micro:bit tölvuna (SparkFun gator:bit fyrir krókódílaklemmur eða "breakout" bretti fyrir tengivíra, t.d. micro:bit Breakout frá SparkFun eða Edge connector frá Kitronik; fjöldi og gerð fer eftir verkefnum)
  • Brauðbretti (1 per hóp)