Suða og þétting vatns

Við erum flest vön því að horfa á vatn sjóða í potti og verða að gufu. Þá líður gufan hægt upp úr pottinum. En hversu mikið pláss tekur gufan miðað við vatnið sem það varð til úr? Og hvað gerist þegar það þéttist aftur?

Efni og áhöld

Þessi tilraun er tvískipt. Í fyrri hlutann þarf:

 • Vatn
 • Blöðru
 • Örbylgjuofn

Í seinni hlutann þarf:

 • Vatn
 • Tóm áldós
 • Kar til að hvolfa dósinni í
 • Prímus eða eldavélahellu
 • Grilltöng, salatskeiðar, eða annað álíka til að taka áldósina upp

Framkvæmd

Til að sjóða vatn í blöðru:

 1. Helltu smá vatni í blöðru.
 2. Hnýttu fyrir blöðruna.
 3. Settu hana í örbylgjuofn á fullan kraft og fylgstu með henni blásast upp þegar vatnið sýður.

Til að kremja áldós:

 1. Helltu köldu vatni í kar og hafðu það nálægt eldavélinni/prímusnum.
 2. Helltu botnfylli af vatni í áldós.
 3. Settu áldósina á eldavélahellu/prímusinn og kveiktu undir.
 4. Þegar vatnið sýður hressilega og mikið af gufu er farið að streyma um opið tekurðu dósina með grilltöng eða öðru álíka áhaldi og skellir henni hratt og örugglega á hvolf í kalda vatnsbaðið.