Jörð og Tungl í réttum hlutföllum

Hér að neðan eru leiðbeiningar að því hvernig búa má til líkan af Jörðu og Tungli í réttum hlutföllum.

Öll þekkjum við þessa hnetti enda standa þeir okkur nærri. Bókstaflega, jafnvel, því á Jörðunni verjum við svo til öll lífi okkar öllu, og Tunglið er okkur næsti hnöttur. Tunglið er reyndar eini hnötturinn sem við getum greint yfirborðið á án sjónauka.

En hversu stórir eru þessir hnettir og hversu fjarri er Tunglið frá okkur? Þetta verkefni varpar ljósi á það.

Efniviður

  • Pappi (venjulegur 80 gr. pappír virkar, en betra er að vera með þykkari pappa)
  • Geisladiskur og gosflöskutappi
  • Blýantur
  • Skæri
  • Litir
  • Snæri
  • Málband eða tommustokkur

Framkvæmd

1

Teiknaðu tvo hringi á hvítan pappa; annan 12 cm í þvermál og hinn 3,2 cmút renning.
Geisladiskur er 12 cm í þvermál og gostappi 3,1 cm svo þeir henta vel í þetta. Mundu að leggja skapalónin upp við jaðar pappans til að skilja sem mest nýanlegt pláss eftir.

2

Klipptu hringina út og litaðu.
Þú velur hvort þú gerir fyrst. Hér geturðu gefið ímyndunaraflinu lausan tauminn og hugsað hvernig þú vilt láta hnettina þína líta út. Þeir geta verið eins og Jörðin og Tunglið, eða þú getur skáldað eigin hnetti með annars kyns yfirborði og öðrum litum. Eru höf og andrúmsloft á plánetunni þinni? Hvað með lífverur?

3

Mældu 3,8 m af snæri og límdu endana aftan á sitt hvorn hnöttinn.
Nú hefur þú búið til líkan af Jarðar-Tungsl kerfinu í réttum hlutföllum!

Ítarefni

Í raun er hægt að gera líkanið í hvaða hlutföllum sem er. Þetta líkan er í hltuföllunum 1:106 000 000 og var miðað við að Jörðin væri á stærð við geisladisk. Í þeim hlutföllum væri Sólin í 1,4 km fjarlægð frá líkaninu og heilir 13,1 m í þvermál. Í sömu hlutföllum væru stærðir og fjarlægð reikistjarnanna eftirfarandi:

Reikistjarna/pláneta Líkanfjarlægð Líkanstærð
Merkúríus 0,43 km 4,6 cm
Venus 1,0 km 11 cm
Jörðin 1,4 km 12 cm
Mars 2,2 km 6,4 cm
Júpíter 7,0 km 1,3 m
Satúrnus 14 km 1,1 cm
Úranus 28 km 48 cm
Neptúnus 42 km 46 cm

Önnur hlutföll

Almennt má finna stærðarhlutföll líkans með því að deila upphaflegu stærðinni með líkanstærðinni. Þvermál Jarðar er 12 742 018 m svo ef þvermál líkansins er 40,0 cm (eins og stærð jarðarboltans sem ætti að finnast í öllum skólum) verða hlutföllin:

12 742 018 m / 0,400 m = 31 900 000

Fjarlægðin á milli Tungls og Jarðar er að meðaltali 384 400 000 m en til að finna líkanstærðina deilum við raunfjarlægðinni með stærðarhlutfallinu:

384 400 000 m / 31 900 000 = 12,1 m

Lögun brauta

Braut Tunglsins um Jörðu er reyndar ekki alveg hringlaga og því er fjarlægðin breytileg; allt frá 356 500 km og upp í 406 700 km. Eins eru brautir reikistjarnanna um sólu ekki heldur hringlaga heldur misaflangar sporöskjur.

Braut Merkúríusar er með mestu miðskekkjuna (mest frávik frá hringlaga braut) en reikistjarnan er um helmingi lengra frá sólu þegar mest er (við sólfirð) miðað við þegar hún er næst sólu (við sólnánd). Hinar reikistjörnurnar eru mun nær hringlaga brautum og er Jörðin t.d. aðeins rétt rúmlega 3% fjær sólu við sólfirð miðað við sólnánd.

Plútó er, eins og mörg vita, ekki lengur talin til reikistjarna/pláneta, heldur fellur í nýjan flokk dvergreikistjarna/dvergpláneta (líkt og Ceres, Eris, Haumea, Makemake, og fleiri). Plútó er hins vegar einnig með enn meiri miðskekkju en Merkúríus og svo mikla að braut hans liggur að hluta til nær sólu en braut Neptúníusar. Braut Plútós hallar reyndar líka sérstaklega mikið miðað við brautir reikistjarnanna.