Plast er mikið undraefni. Plast er þó ekki bara plast. Það eru til ótal gerðir plasts með ólíka efniseiginleika. Það sem sameinar þó flestar plastgerðir er hvað það er létt, slitsterkt, og auðmótanlegt sem gerir það að ákjósanlegu efni í alls kyns framleiðslu.
Plast er því allt í kringum okkur. Prufaðu að horfa í kringum þig og telja upp nokkra hluti sem eru gerðir úr plasti. Marga hluti er ekki hægt að gera nema úr plasti án gríðarmikils kostnaðar, en öðrum er nokkuð auðveldlega hægt að skipta út.
Til undirbúnings fyrir heimsókn í Vísindasmiðjuna þar sem rætt verður um samspil plasts og náttúru er gagnlegt að hafa hugleitt aðeins hversu víða plast er í kringum okkur, og hvað verður um plastið þegar við erum hætt að nota það.
Setjið upp sér plast-söfnunartunnu í skólastofunni og safnið í minnst eina viku öllu því plasti sem kennarar og nemendur í bekknum nota í skólanum. Umbúðirnar þarf þó að skola vel því um morgunninn þegar hópurinn leggur af stað í Vísindasmiðjuna er söfnunartunnan tekin með því við ætlum að skoða plastið í Vísindasmiðjunni.
Sé áhugi fyrir má líka útfæra verkefnið á ýmsa vegu:
- Plasti safnað heima sem og í skóla
- Plasti safnað í fleiri en einum bekk
- Plasti safnað yfir lengri tíma
- Plasti safnað í kringum skólann, í almenningsgarði eða fjöru