Geislarakningarsett
Ljósakassinn inniheldur tvö geislarakningarsett sem innihalda 13 hluti hvert:
- Leisigeisla með þremur samsíða geislum
- Tveimur planspeglum
- Tvennu sveigðra spegla: íhvolfs og kúpts
- Safnlinsu
- Dreifilinsu
- Rétthyrndum plastsívalningi (flatri linsu)
- Rétthyrndu vökvahólfi
- Stækkunargleri
- Brúnni gegnsærri plötu
- Tveimur rauðum keilum
- Blárri keilu með rauf
Með settunum tveimur má skoða speglun og ljósbrot, allt frá lauslegri skoðun á því hvernig ljósgeislar ferðast um þessa íhluti og upp í hlutbundnar hornamælingar á fræðilegum líkönum.
Það getur verið gagnlegt að prenta þennan gráðuboga eða eitthvað álíka út og nota sem undirlag.
Ljóskastarar
Í ljósakassanum eru þrír ljóskastarar. Þeir eru án tengils svo hann þarf að útvega og festa á. Leiðeiningar eru í myndbandinu hér á síðunni.
Kastararnir eru hver í sínum lit; rauður, grænn og blár. Þetta eru einmitt frumlitir ljóss og koma til vegna þess hvernig augu okkar greina liti.
Með ljóskösturunum má t.a.m. skoða litablöndun ljóss og hvernig mislitir hlutir líta út í mislitu ljósi.
Leisigeisli
Leisigeislinn í ljósakassanum kemur með standi til að festa hann á. Með standinum koma þrjár skrúfur og tappar til að festa hann á vegg en í flestum tilvikum er það óþarfi.
Öryggisreglur
Leisigeislinn er um 0,5 mW (millívatt) og því innan þeirra 1 mW hættumarka sem miðað er við. Leisigeislinn er því óskaðlegur en þó er rétt að venja sig á ákveðnar umgengnisreglur þar sem margir leisigeislar eru sterkari og margir seldir rangt merktir.
Öryggisreglurnar má segja að séu tvær:
- Aldrei beina leisigeisla að höfði nokkurs, ekki heldur hnakka. Við stjórnum því ekki hvenær fólk snýr sér við.
- Aldrei reka speglandi flöt inn í leið geislans.
Leisigeislinn er til margs brúklegur utan þess að kynna fyrir nemendum hvernig ganga megi um hann á öruggan hátt. Leisigeislinn er t.a.m. gagnlegur til að lýsa upp ljósleiðarann (sjá neðar) og skoða mynstur sem verða til vegna bylgjuleiginleika ljóss.
Ljósgreiður
Í minna umslaginu í kassanum eru 12 ljósgreiður, þar af ein í skyggnuramma, og þrjú hólkasett til að búa til litrófssjár úr (sjá leiðbeiningar á myndbandinu hér að ofan eða á þessari síðu).
Ljósgreiðurnar eru þunnar filmur, alsettar þétt samsíða rákum sem dreifa úr ljósinu sem á þær skín, mismikið eftir öldulengd (og þar með lit) ljósblgjanna. Við getum því séð úr hvaða litum ákveðið ljós er gert. Sólarljós myndar samfelldan regnboga eins og við eigum að venjast en flúrperur mynda strjál litróf með einstaka línum og götum inni á milli þeirra.
Vísindasmiðjan býr að umframmagni af ljósgreiðum og plasthólkum. Hafið samband við Ara Ólafsson ef þið viljið bæta á byrgðirnar.
Skautunarsíur
Í kassanum eru tvær skautunarsíur til sýnikennslu og nokkrar minni svo nemendur geti unnið verkefni tengd þeim.
Með skautunarsíunum má skoða skautun ljóss frá skautuðum ljósgjöfum, speglun og ljós frá annarri skautunarsíu. Eins má skoða hvernig skautað ljós ferðast í gegnum tvíbrjótandi efni eins og límband, teygða byggingarplastbúta eða stökkt plast (umbúðir utan af páskaeggjum eru þar gott dæmi).
Vísindasmiðjan býr að umframmagni af skautunarsíum. Hafið samband við Ara Ólafsson ef þið viljið bæta á byrgðirnar.
Ljósleiðari
Í A4 umslagi í kassanum eru um 50-60 m af ljósleiðara. Ljósleiðarinn hefur þann eiginleika að þegar ljós innan hans fellur að vegg hans undir gleiðu horni endurkastast ljósið allt aftur inn í ljósleiðarann. Þetta fyrirbæri, alspeglun má kanna betur með hálf-sívölu linsunni í geislarakningarsettinu en ljósleiðarann má t.a.m. nota til að leiða ljós á milli herbergja eða búa til listaverk.
Vísindasmiðjan býr að umframmagni af ljósleiðara. Hafið samband við Ara Ólafsson ef þið viljið bæta á byrgðirnar.
Litla sólin
Með í Ljósakassanum fylgir ljós sem knúið er sólarrafhlöðu. Ljósið kallast litla sólin og er hluti af alþjóðlegu verkefni sem hefur að markmiði að dreifa sjáfbærri sólarorku eins vítt og mögulegt er.
Litla sólin er öruggur, þægilegur og sjálfbær ljósgjafi, og því dýrmætur ljósgjafi á svæðum án rafmagns.
Með Litlu sólinni fylgir bæklingur sem kynnir verkefnið og er ágæt sem hugvekja um þátt manngerðra ljósgjafa í nútímasamfélagi.