Sérstaðan
Alheimurinn er 0 sekúndna gamall. Við vitum afar lítið um þennan atburð enda er hann hulinn örbylgjukliðnum. Vonir standa hins vegar til um að þyngdarbylgjur geti mögulega varpað „ljósi“ á þennan atburð.
Þó eru til nokkrir möguleikar: Að upphaf Alheims sé bara upphaf og það sé ekki hægt að leggja neina merkingu í eðli þess eða „orsök“. Upphafið hafi bara verið þétt og heitt ástand og svo hafi heimurinn þróast eftir náttúrulögmálunum. Önnur kenning gengur út frá því að Alheimurinn sé í raun bara hluti fjölheims. Fjölheimurinn sé óendanlega gamall en svokallað óðaþenslusvið valdi slembið því að smáir bútar hans taki að þenjast út og myndi þá alheima með ákveðnum náttúrulögmálum sem ákvarðast þegar óðaþenslu lýkur.
Það eru til fleiri útgáfur, en það bíður næstu kynslóða stjarnvísindafólks og mælitækja að þróa kenningar okkar um upphaf alheims og svo safna gögnum til að greina á milli þeirra. Eitt erum við þó nokkuð viss um, og það er að heimurinn hófst í afar heitu, og afar þéttu ástandi.
Óðaþensla
Frá því að Alheimurinn er um 10−36 sekúndna gamall þar til hann er til um 10−33 eða 10−32 sekúndna gamall (0,00 000 000 000 000 000 000 000 000 000 000 000 1 sekúndur til 0,00 000 000 000 000 000 000 000 000 000 001 sekúndur) þenst hann ógurlega hratt. Það er ekki hægt að setja það alveg fyrir víst, en það hefur verið að minnsta kosti 1026-falt (100 000 000 000 000 000 000 000 000-falt, eða 100 kvaðrilljón-falt).
Það eru sannarlega stjarnvísindalega stórar tölur!
Á þessum um 14 milljörðum ára síðan þá, hefur Alheimurinn vaxið um aðeins 5·109-falt (5 000 000 000-falt, eða 5 milljarð-falt). Eftir að óðaþenslu lýkur kólnar hann í takti við útþensluna, og öreindir og frumeindir ná að myndast.
Örbylgjukliðurinn og hinar myrku aldir
Þegar Alheimurinn er um 370 000 ára gamall hefur hann kólnað nægilega að frumeinda- og rafeinda-súpan nær að sameinast og mynda óhlaðnar frumeindir. Þar áður höfðu ljóseindir sem gnægð var af í frumbernsku Alheims ekki getað ferðast langt án þess að rekast á hlaðnar eindir. Þegar frumeindirnar ná að grípa rafeindir og verða óhlaðnar er lítið í vegi fyrir ljósinu og það nær loksins að ferðast nokkuð óhindrað í beinar línur í nú gegnsæju rúminu.
Síðan þá hefur alheimurinn verið gegnsær, en áður hafði hann verið ógegnsær. Þar sem við erum í reynd að horfa aftur í tímann því lengra sem við horfum út í heiminn, sjáum við á endanum eins konar ógengsæjan vegg umlykja okkur. Þessi veggur er örbylgjukliðurinn. Innan hans er það sem við köllum hinn sýnilega alheim.
En þetta nýgegnsæja efni var í raun bara dreift um rúmið. Það tók hundruðir milljóna ára fyrir þetta efni að falla saman undir veikum þyngdarkrafti hvers annars og mynda fyrstu stjörnurnar. Þetta tímabil er kallað hinar myrku aldir.
Talið er að kviknað hafi á fyrstu stjörnunum þegar alheimurinn var um 200-500 milljóna ára gamall (200-500 000 000 ára gamall) en það er ekki vitað hvort þær hafi verið skammlífar eða einhverjar kunni jafnvel enn að vera á lífi. Næstu hundruði milljóna ára mynda stjörnurnar vetrarbrautirnar og þegar Alheimurinn er um milljarðs ára gamall (1 000 000 000 ára gamall) er hann tekinn að líta nokkuð kunnuglega út.
Stjörnu- og vetrarbratuarþróun
Frá því að heimurinn er um milljarðs ára gamall og þar til á okkar daga, um 13 milljörðum ára síðar, halda vetrarbrautir áfram að þróast, og stjörnur fæðast, skína og deyja.
Fyrstu stjörnurnar innihéldu svo til aðeins vetni og helín. Þær kallast fyrstu kynslóðar stjörnur. Þegar þær brunnu, mynduðu þær þyngri frumefni sem þær dreifðu svo út frá sér þegar þær þyngri sprungu í dauðategjum sínum. Leifarnar féllu svo saman aftur og mynduðu nýjar stjörnur, nú með nokkru meira af þyngri frumeindum, og möguleikanum á að reikistjörnur myndist í kringum þær.
Sólin okkar verður til fyrir um 4,6 milljörðum ára (4 600 000 000 ára). Alheimurinn er nú um 13,8 milljarða ára gamall, svo sólin okkar hefur verið til í um ⅓ af aldri Alheims, og er hún er talin vera þriðju kynslóðar stjarna. Svo til öll þyngri frumefni sólkerfisins, þar á meðal efnin sem þú ert búin(n) til úr hafa því myndast í einni af tveimur stjörnum sem hafa myndað þessi frumefni í kjarnahvörfum í iðrum sér, og varpað þeim út í geiminn við lok lífs síns.
Heimildir og myndir