Margir hafa heyrt að heitt rísi og kalt falli. Þetta kemur til vegna hitaþenslunnar. Hér að neðan er stutt myndband af einfaldri heimatilraun sem sýnir áhrif þessa.
Efni og áhöld
Í þessa tilraun þarf:
- Tvær krúsir eða könnur fyrir heitt og kalt vatn
- Heitt og kalt vatn (það er nóg að vera með heitt og kalt vatn úr krana; hraðsuðuketillinn er í raun óþarfur)
- Matarlit í einum eða tveimur litum (hér notum við bláan og rauðan en það er nóg að merkja bara annan vökvann)
- Tvö eða fjögur glös í sömu stærð.
- Álpappir, pappaspjaldi, eða eitthvað álíka stíft og þunnt sem nær út yfir brúnina á glasinu. Á myndbandinu sést að þunni pappírinn blotnar ansi hratt þegar hann er lagður við heita vatnið. Álpappír er mjög fínn.
Framkvæmd
- Heitt og kalt vatn eru sett í krús eða könnu og merkt með matarlit. Í raun er nóg að lita bara annað þeirra.
Byrjum á að leggja heitt vatn ofan á kalt:
- Köldu vatni er hellt í glas upp að brún.
- Heitu vatni er hellt í glas. Það má líka vera upp að brún, en þess þarf ekki því þessu glasi verður hvolft.
- Álpappír eða þunnt spjald er lagt yfir glasið með heita vatninu. Hönd lögð yfir þetta lok til að halda því þéttu við og glasinu hvolft.
- Þegar glasið er á hvolfi má sleppa lokinu og loftþrýstingurinn heldur lokinu á og vatninu uppi.
- Glasið með heita vatninu er lagt ofan á glasið með kalda vatninu þannig að brúnirnar passi saman.
- Lokið er hægt og rólega dregið undan glösunum svo vökvarnir liggi upp að hvor öðrum.
Leggjum nú kalt vatn ofan á heitt:
- Heitu vatni er hellt í glas upp að brún.
- Köldu vatni er hellt í glas. Eins og fyrr má það vera upp að brún, en glasið sem verður ofan á þarf ekki að fera fullt.
- Álpappír eða þunnt spjald er lagt yfir glasið með kalda vatninu. Hönd lögð yfir sem fyrr til að halda við meðan glasinu er hvolft.
- Þegar glasið er á hvolfi má sleppa lokinu og loftþrýstingurinn heldur lokinu á og vatninu uppi.
- Glasið með kalda vatninu er lagt ofan á glasið með heita vatninu þannig að brúnirnar passi saman.
- Lokið er hægt og rólega dregið undan glösunum svo vökvarnir liggi upp að hvor öðrum.