Uppsetning
Verkefnahugmyndir
Könnun: Alspeglun í ljósleiðara
Berðu leisigeisla upp að enda ljósleiðara svo ljósið sést koma út um hinn endann, þótt ljósleiðarinn sé undinn í marga hringi.
Könnun: Alspeglun í hálfsívalningslinsu
Lýsið með skörpum ljósgeisla eða línuleisi þvert á kúpta hluta linsunnar svo það komi að miðjum flata fletinum. Ef ljósið fellur þvert á flötinn nær það út, en ef horninu er breytt mun ljósið brotna og koma út undir öðru horni. Við ákveðið horn fæst hins vegar fullkomin speglun þannig að allt ljósið sem lendir á fletinum endurkastast
Vinnusmiðja: Morsað á milli skólastofa
Leggið ljósleiðarann á milli skólastofa. Berið leisigeisla eða annan sterkan ljósgjafa upp að öðrum endanum og rjúfið til skiptis til að senda morsmerki. Getið þið útbúið uppstillingu sem leyfir notanda að auðveldlega senda áreiðanleg morsmerki?
Vinnusmiðja: Búa til listaverk
Búitið ljósleiðarann niður og búið til skemmdir í hann til að ljós leki út. Berið ljósgjafa upp að endanum og sjáið hvernig ljósleiðarinn lýsir upp þar sem veilur hafa verið gerðar í hann
Skerið ljósleiðarann niður í búnt sem límt er saman í stofni (t.d. í grönnu sogröri eða herpihólki) og lýst upp með 5mm ljóstvisti (LED peru).
Tengd verkefni utan Ljósakassans
Könnun: Alspeglun neðan vatnsflatar
Þegar horft er að neðan upp að yfirborði sundlaugar virðist yfirborðið speglandi, líkt og þar liggi kvikasilfur á yfirborðinu. Þarna er hins vegar ekki um annað en alspeglun að ræða. Ef horft er nokkuð lóðrétt upp sést í gegnum vatnsflötinn. Hver ætli heimssýn fisks í fiskabúri sé?
Vinnusmiðja: Ljósleiðari úr vatni
Taktu gegnsæja plastflösku eða annað álíka ílát og gerðu gat neðarlega á hana. Haltu fyrir gatið og fylltu flöskuna af vatni. Skrúfaðu lokið aftur á flöskuna. Ef gatið er nógu lítið mun ekki leka út þegar tappinn er kominn á. Annars geturðu lokað fyrir það með límbandi eða kennaratyggjói. Beindu leisigeisla beint í gegnum flöskuna á gatið að innan. Þegar losað er um vatnsbununa svo hún leki út um gatið fylgir leisigeislinn bununni allt þar til bunan brotnar.