Í þessu verkefni munið þið tengja ljóstvist (LED peru) við Raspberry Pi tölvu með tengivírum og brauðbretti.
Þú þarft:
- Raspberry Pi tölvu
- brauðborð
- ljóstvist
- 200-400 Ohm viðnám
- tengi (2x MF, 1x MM)
Þið munið nota svokallað „brauðbretti“ til að tengja íhlutina saman. Brauðbrettið er þægilegt til að vinna í því það þarf hvorki að skrúfa neitt, klemma eða lóða. Það er nóg að stinga endum íhlutanna í rétt göt.
Götin í brauðbrettinu eru sum tengd saman. Í fyrsta lagi eru það afltengibrautirnar sem merktar eru plús og mínus. Þessar renna eftir langhliðum brauðbrettisins og eru notaðar til að gera afl og jörð aðgengileg á brettinu.
Í öðru lagi eru það raðirnar, en þær eru númeraðar og tengdar saman þvert á aflbrautirnar, eftir skammhlið brauðbrettisins.
Göt raðanna eru líka merkt bókstöfum til að geta vísað í ákveðin göt (t.d. röð 12, dálkur c; eða gat 12-c).
Byrjum á því að tengja afl og jörð í tengibrautirnar. Hin svokallaða „jörð“ er hér bara neikvæða tengið sem er merkt með mínusmerki. Tengið það úr einhverjum pinna á Raspberry Pi tölvunum sem er merktur með mínus við mínusbraut brauðbrettisins.
Tengið svo pinna sem er merktur „3.3“ (fyrir 3,3 Volt) við plúsbraut brauðbrettisins.
Tengjum nú viðnám á milli neikvæðu brautarinnar og einhverrar raðar sem þið veljið. Beygið enda viðnámsins í „U“ og stingið öðrum í eitthvert gat neikvæðu brautarinnar og hinum í einhverja röðina (það skiptir engu máli hvaða röð það er).
Tengjum svo ljóstvist (LED peru) á milli tveggja raða þannig að annar pinninn sé í röðinni sem viðnámið er í, og hinn í annarri. Athugið: Það skiptir máli hvernig peran snýr! Stutti endinn er neikvæði endinn og þarf því að vísa til „jarðar“ eða í röðina sem viðnámið er tengt í (því hinn endi viðnámsins er tengdur í jörð — eða mínus). Langi endinn fer svo í nýju röðina.
Loks lokum við rásinni með því að tengja röð langa enda ljóstvistsins við jákvæðu brautina með tengivír.